151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða hjúkrunarheimila.

[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður fagnar því sem ég segi hér. Ég vil hins vegar segja það að við þurfum að tryggja að greiningin liggi fyrir þannig að þó þingmaðurinn telji að hún geti þar með nefnt upphæðina og hún sé þar með í hendi þá er það kannski ekki alveg þannig. Það verður miklu frekar þegar gögnin liggja fyrir og árið verður gert upp. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það getur verið krefjandi að þurfa að bíða eftir því, en það er samt eiginlega eina leiðin sem við getum farið, þegar við sjáum áhrif faraldursins á reksturinn. Því miður erum við væntanlega að fara inn í áframhaldandi áskoranir fyrir þennan rekstur og allan annan rekstur í heilbrigðisþjónustu inn á árið 2021. Við vorum að vona framan af ári að það yrði árið þar sem við værum komin út úr þessum faraldri. En það breytir ekki því að það á fyrir okkur að liggja að taka þetta uppgjör og ég hef alltaf viljað nálgast það af sanngirni.