151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

bóluefni gegn Covid-19.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir rúmum tveimur vikum, þann 13. október sl., vakti ég máls á því í ræðustól, undir liðnum störf þingsins, að teikn væru á lofti um að bóluefni við kórónuveirufaraldrinum kæmi á markaði jafnvel snemma á næsta ári. Það væri þá eftir örfáa mánuði. Í ræðu minni velti ég upp spurningum um hverjar áætlanir ríkisstjórnarinnar væru í þessu máli. Heilbrigðisráðherra Noregs hefur upplýst norska Stórþingið um að norsk stjórnvöld telji líklegt að bóluefni komi skömmu eftir næstu áramót. Í Færeyjum hafa ráðamenn jafnvel talað um að bóluefni verði tilbúið til dreifingar fyrir jól. Þetta eru aðeins tvö dæmi.

Hvernig metur heilbrigðisráðherra stöðuna í þessum málum? Hverjar telur hún horfurnar á því að við fáum bóluefni á næstu mánuðum? Er hafinn undirbúningur fyrir framkvæmd bólusetningar hér á landi? Hver mun greiða kostnað vegna hennar? Hvernig verður skipulagið við bólusetningu? Verða áhættuhópar settir í forgang, þá á ég við fólk með undirliggjandi sjúkdóma, aldraða og starfsfólk í heilbrigðisgeiranum? Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að sjá um útgjöld vegna bólusetningar. Færeyska stjórnin hefur lýst því yfir að bólusetning verði ókeypis. Hvernig verður þetta hér? Verður hver og einn að borga fyrir sína bólusetningu eða greiðir ríkissjóður fyrir hana? Er ríkisstjórnin á Íslandi eitthvað farin að hugleiða skipulagningu bólusetningar gegn veirunni? Væri ekki ráð að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem fer fyrir stjórninni í þessum málum, upplýsi þjóð og Alþingi um hvað standi til að gera? Hvernig ætlum við að haga bólusetningunni?