151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

bóluefni gegn Covid-19.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vildi spyrja um þetta vegna þess að núna er verið að bólusetja fyrir árlegri flensu og komið hefur í ljós að það eru ekki nógu margir skammtar til. Þá er líka spurningin: Hverjir hafa setið eftir? Eru það einhverjir í áhættuhópum? Ég hef áhyggjur af því að ef við ráðum ekki við þessa árlegu bólusetningu, hvernig ástandið verður þá þegar bólusetning fyrir Covid-19 hefst. Ég er ánægður með að það sé á hreinu að það verði að kostnaðarlausu fyrir almenning, vegna þess að stór hópur úti í samfélaginu mun ekki hafa efni á því að borga fyrir þessa bólusetningu. En ég hef samt áhyggjur af framkvæmdinni.