151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum málefni sveitarfélaganna vegna Covid-19. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra. Eins og komið hefur fram eru sveitarfélögin í mismunandi stöðu í Covid-faraldrinum og fjárhagsleg staða þeirra er mjög misjöfn. Ein mynd sem hefur komið upp og er ljót í vanda sveitarfélaganna er hvernig staða hjúkrunarheimilanna er. Það er gjörsamlega óþolandi að kostnaður vegna hjúkrunarheimila sé ekki reiknaður út og að sveitarfélögin séu hvert á fætur öðru að gefast upp á þeim rekstri. Enn þá ljótari mynd er það sem hefur komið fram og er enn að ske og það er nauðungarvistun fatlaðra á hjúkrunarheimilum. Ástæðan sem sveitarfélögin gefa upp er að það vanti fé frá ríkinu, fé vanti fyrir NPA-samningum frá ríkinu. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getum við á þessum tímum, 2020, verið í þeirri aðstöðu að nauðungarvista fatlað fólk inni á hjúkrunarheimili, þar sem er fólk sem komið er á síðari árin, og setja jafnvel ungt fólk þangað, sem á að vera þar í fjölda ára, ungt fólk sem á þar ekki heima? Ekkert okkar í þessum sal, þó að við værum orðin 67 ára, myndi vilja fara inn á hjúkrunarheimili, hvað þá í nauðungarvistun, í boði sveitarfélaga eða ríkissjóðs, vegna þess að ekki eru til peningar.