151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

201. mál
[17:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið hér, þegar verið er að ræða þetta mál og næsta mál á eftir, til að benda á að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd tókst ágætissamvinna og samkomulag um það hvernig væri hægt að laga og bæta þessi mál. Niðurstaðan varð sú að það tókst þannig að við í nefndinni urðum öll sammála um að styðja málið. Ég held að þetta sé bara enn eitt góða dæmið um það hversu mikilvægt það er að nefndirnar vinni vel, reyni að vinna saman og vinni sameiginlega að því að finna viðunandi lausnir. Auðvitað verður trúlega seint þannig staðið að málum eins og þessum að allir verði fullkomlega ánægðir eða að ekki komi upp einhver markatilvik sem geta valdið óánægju. En ég fullyrði að nefndin lagði sig fram um að búa þetta eins vel úr garði og hægt er. Þetta vildi ég láta koma fram.

Jafnframt vil ég nota tækifærið til að brýna okkur og þá ekki síst stjórnvöld til þess að reyna betur en hingað til að fylgja sóttvarnaaðgerðum betur eftir, sem þetta snýst jú um, og afleiðingum þeirra með tímanlegum hætti, með fyrirætlunum um það hvernig, eða kannski eigum við að byrja á að segja hvort og þá hvernig, verður brugðist við þeim áhrifum sem aðgerðirnar kunna að hafa á rekstur fyrirtækja í þessu tilviki. Ég held að það sé mjög brýnt og ég held að þetta getum við gert betur. Þetta held ég að stjórnvöld geti gert betur.

Nú getum við sagt að við séum að sumu leyti að verða býsna vön því að lifa með þessu ástandi, þessari veiru. Við erum búin að átta okkur á því að það kunna að verða sveiflur og hafa orðið sveiflur í því hvernig við bregðumst við. Stundum þarf að grípa til aðgerða sem hafa áhrif og það getur liðið tími á milli og síðan kemur aftur að þeim. Ég vil því nota þetta tækifæri til að brýna stjórnvöld til að huga að því að setja upp sviðsmyndir, eins og gjarnan er talað um, og að menn horfi fram í tímann og segi við sjálfa sig: Ef þetta ástand kemur upp aftur eða með áhrifameiri hætti eða áhrifaminni þá munum við gera þetta. Þá er hægt að gefa út yfirlýsingar til fyrirtækjanna í landinu, sem við erum að tala um núna, um það hvernig það verður gert. Þá þurfa menn ekki eins og hefur því miður brugðið við — í upphafi var það ósköp eðlilegt — en það verður minni og minni afsökun fyrir því að á síðustu stundu og jafnvel eftir síðustu stundu sé verið að ganga frá málum hér sem hafa mikil áhrif á það hvaða ákvarðanir þarf að taka í atvinnulífinu, í fyrirtækjunum, af þessum sökum.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og ég vildi koma hér upp til að brýna stjórnvöld til að gera betur í þessum efnum því að þá drögum við úr því að þetta þurfi að gera á síðustu stundu. Við drögum úr því að það komi upp vandamál. Við drögum úr áhyggjum og kvíða og við drögum úr því að jafnvel sé gripið til ráðstafana í fyrirtækjunum sem síðar reynast ekki nauðsynlegar. Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti.