151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

220. mál
[18:38]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/517 frá 19. mars 2019, um að taka í notkun höfuðlénið .eu og hlutverk þess og um breytingu og niðurfellingu á reglugerð nr. 733/2002 sem og niðurfellingu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 874/2004, verði felld inn í samninginn.

Reglugerðin sem felld er inn í samninginn með ákvörðun nr. 83/2020 felur í sér breytingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 733/2002 um að taka í notkun .eu höfuðlénið sem og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 874/2004 frá 28. apríl 2004 um reglur um opinbera stefnu varðandi að taka í notkun .eu höfuðlénið og hlutverk þess ásamt meginreglum um skráningu. Með tillögunni er ætlunin að gera reglurnar um höfuðlénið .eu sveigjanlegri og betri í notkun.

Markmiðið með tillögunni er að fella niður óþarfar reglur um lénið .eu og hafa reglurnar þannig að af þeim hljótist sem minnst umstang. Þetta er gert í ljósi þess að samkeppni fer væntanlega vaxandi um skráningu og úthlutun léna. Draga á úr íþyngjandi málsmeðferð og umsýslu við skráningu lénsins og slaka á úthlutunarskilyrðum.

Tillagan felur hvorki í sér eðlisbreytingu á starfsemi höfuðlénsins .eu frá því sem nú er né er verið að auka íþyngjandi kvaðir. Fremur er markmiðið að slaka á kröfum og gera reglurnar sveigjanlegri og betri í notkun.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.