151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

orð þingmanns í störfum þingsins.

[11:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tel mig tilneydda til að koma hingað upp í þessum lið einmitt til þess að taka undir orð hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og harma það að þessi tiltekni þingmaður sé ítrekað að afvegaleiða umræðuna og fara fram með fleipur í þessu máli. Ég get þar bent á það sem sagt var hér á opnum fundi hv. velferðarnefndar í gær þar sem umræddur þingmaður kom einmitt inn á þetta mál líka og talaði um að verið væri að flytja inn ólöglega 150.000 konur. Hv. þingmaður leyfir sér að tala með þessum hætti hjá fastanefnd þingsins. Manni blöskrar hvernig hann setur fram ósannindi. Það er ekki hægt að segja að þetta sé misskilningur í orðum hv. þingmanns. Hann er að reyna að afvegaleiða umræðuna, eingöngu vegna þess að hann var á móti frumvarpi hæstv. ráðherra varðandi þungunarrof sem samþykkt var hér af meiri hluta alþingismanna á síðasta þingi.