151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér skýrslu um Covid og ástandið í þeim málum. Aðaláhyggjur mínar liggja í því að eftir mína litlu grímunotkun, sem ég reyni að takmarka eins og ég get, en nota grímuna alltaf á almannafæri, þá hef ég uppgötvað að eftir ekki margar mínútur með hana er ég kominn með höfuðverk og mér finnst það óþægilegt. Þá fór ég að hugsa um starfsfólk spítalanna sem er með grímu og í búningum tímunum saman. Hvernig er ástandið þar? Hvers konar álag er á því fólki, andlegt og líkamlegt? Hefur það verið kannað? Er fylgst með því?

Ég segi bara að ég dáist að því fólki sem hefur staðið allan þennan tíma, nú eru þetta orðnir níu mánuðir, í fremstu víglínu og ég spyr ráðherra: Fær þetta fólk áhættuþóknun fyrir vinnu sína eða álag? Ég tel að þarna vinni fólk ótrúlegt starf. Ég spyr líka í því samhengi, vegna þess að við vitum að þarna úti eru hjúkrunarfræðingar sem hafa ekki skilað sér inn, maður veit ekki hversu margir, það eru einhverjir tugir eða hundruð, hvort verið sé að virkja þá, reyna að fá inn fleiri af því að við þurfum bakvarðasveit, við þurfum fólk til vara.

Ég spyr mig: Hversu lengi getur núverandi hópur staðist þetta? Við vitum ekkert hvort bylgjan sem er núna í gangi er sú síðasta. Við höfum ekki hugmynd um það. Við virðumst heldur ekki hafa verið alveg nógu vel undirbúin fyrir hana vegna þess að útskriftarvandinn er enn til staðar, þó að við hefðum átt að vita betur og vera tilbúin. Og ég spyr ráðherra: Hvað sér hún í þessum málefnum fólks?