151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[12:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir skjót viðbrögð við að koma þessari umræðu, um biðlista eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál, á dagskrá. 1.193 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Fjölmennastur er biðlistinn á Þroska- og hegðunarstöð þar sem 584 börn bíða greiningar. 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, og níu börn eru á biðlista eftir innlögn á deildina. Við erum að láta börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman.

Eins og þessum málum er háttað í dag þurfa börn, sem þurfa á bráðaþjónustu að halda, tilvísun frá heilsugæslunni og þar er biðin oft löng. Fólk þarf jafnvel að tala við símsvara sem gefur stundum villandi möguleika. Fólk er sent frá Pontíusi til Heródesar í tilgangsleysi í stað þess að fá hjálp strax. Geðraskanir eru ein helsta orsök örorku og því fer ekki á milli mála að hana ber að meðhöndla strax hjá börnum og unglingum. Ef það er ekki gert verður það dýrkeypt til framtíðar fyrir börnin og unglingana, fjölskylduna og samfélagið allt. Og hverjar eru afleiðingarnar fyrir viðkomandi börn? Skólaganga þeirra er í uppnámi og framtíð þeirra er í uppnámi, framtíð fjölskyldunnar er í uppnámi. Það er hægt að koma í veg fyrir það með því að sjá til þess að börn séu ekki á biðlista.

Það er nánast enginn stuðningur eða úrræði í boði fyrir þann hóp barna sem elst upp hjá foreldrum með geðrænan vanda og þá vantar einnig stuðning fyrir þann hóp barna sem er að alast upp hjá foreldrum með fíkni- og áfengisvanda. Álag á börn og fjölskyldur þeirra er oft og tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega og líkamlega og fjárhagslega. Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga er ríkið að framleiða öryrkja á færibandi nú og í náinni framtíð. Þá er að koma í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega. Einelti er einnig orsakavaldur geðrænna veikinda hjá börnum og þá bæði hjá þolendum og gerendum. Þetta segir okkur að hver króna sem sett er í þennan málaflokk skilar sér ekki bara tífalt heldur hundraðfalt til baka fjárhagslega fyrir ríkið og samfélagið.

Í skriflegu svari heilbrigðisráðherra til mín í september segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stærsti hluti innlagna á legudeild BUGL eru bráðainnlagnir. Slíkar innlagnir gerast samdægurs og teljast 80–90% allra innlagna á BUGL til slíkra innlagna.“

Áfram segir:

„Þegar mikið álag er á bráðaþjónustu lengist biðtími þeirra sem eru á almennum biðlista. Biðtími eftir slíkri innlögn getur verið frá viku til nokkurra mánaða. Í því sambandi ber þó að geta þess að öll börn sem eru á biðlista eftir innlögn eru í virkri þjónustu göngudeildar BUGL. Meðalbiðtími göngudeildarþjónustu BUGL er nú um sjö og hálfur mánuður.“

Spurningin er hvað felst í því að barn sé í virkri þjónustu hjá BUGL? Er það t.d. eitt símtal á mánuði eins og óánægðir foreldrar hafa bent á að barn þeirra hafi fengið og er hægt að sætta sig við þá takmörkuðu þjónustu? Er barn sem fær bara eitt símtal á mánuði þá skráð þannig að það sé komið í fulla þjónustu hjá BUGL?

Hvað eru mörg svona göt í kerfinu, hæstv. heilbrigðisráðherra? Hvað þarf að bíða lengi eftir að kerfið virki fyrir alla? Er ekki kominn tími til að við brettum upp ermarnar og hysjum upp um okkur buxurnar og förum að taka á þessum málum? Þetta er dauðans alvara, í orðsins fyllstu merkingu. Er það eðlilegt, hæstv. heilbrigðisráðherra, að 500 börn bíði eftir sérhæfðri, faglegri greiningu á Þroska- og hegðunarstöð? Það kemur fram í svari þínu við fyrirspurn minni að skimun hefði sýnt sterkar vísbendingar um geðheilbrigðisvanda barna, eins og ADHD, kvíða, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda og námserfiðleika, og því er það fáránlegt að ekki sé brugðist strax við biðlistavandanum. Meiri hluti þessara barna glímir við vanda á fleiri en einu sviði. Börnin eru á aldrinum 6–18 ára og af þeim bíða um 200 sérstaklega eftir greiningu vegna hamlandi einhverfueinkenna. Fullnaðargreining vandans er þó mikilvæg til að leggja sem best mat á hvers konar meðferðarúrræði eru líklegust til að skila árangri. Má þar nefna að til að hefja lyfjameðferð við ADHD og skyldum röskunum þarf að liggja fyrir fullnaðargreining.

Eins og áður hefur komið fram vantar aðstoð við börn sem þurfa að búa hjá fólki sem býr við áfengis- og fíknivanda og aðra geðræna sjúkdóma. Þar virðist pottur vera illa brotinn og því ber okkur að koma í lag strax. Börn eiga aldrei að fara á biðlista eftir meðferð við geðrænum sjúkdómum eða öðrum sjúkdómum, aldrei. Telur ráðherra ásættanlegt að 100 börn bíði eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingadeildinni? Hvernig hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að stemma stigu við þessum biðlistum? Telur ráðherra það eðlilegt ástand að erfitt sé að manna starfsemi BUGL vegna þess hve lág laun eru í boði? Að lokum: Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa (Forseti hringir.) til að sjá til þess að börn með geðrænan vanda verði ekki sett á biðlista?