Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[12:49]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu og ég vil staldra við síðustu spurningu hans sem fjallar um til hvaða aðgerða ráðherra hyggist grípa. Í mínum huga er brýnt að ráðast aftur í úttekt á geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Síðast var ráðist í það árið 2016 og var það ríkisendurskoðandi sem réðst í slíka úttekt. Nú er liðinn töluverður tími sem ætti að geta gefið okkur ákveðna mynd af því hvaða úrbætur hafa verið gerðar. Við vitum að bætt hefur verið í geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi, eins og við köllum það, en það er því miður ekki nóg þar sem fyrsta stigið vísar áfram í annað og þriðja stig og ef engin úrræði eru þar þá er til lítils unnið.

Umræðan sem fer fram hér í dag snýst að mestu um annars og þriðja stigs þjónustu og bið eftir henni. Þegar börn og ungmenni eru komin á biðlista eftir þeirri þjónustu, eða öllu heldur komin á biðlista eftir hjálp, er margt búið að ganga á og börnin búin að reyna hvað þau best geta til að standa sig. Biðin eftir hjálpinni er skaðleg. Við verðum að breyta þessum áherslum í þá mynd að ekki þurfi greiningu til að fá hjálp. Ég vil taka undir þau orð Héðins Unnsteinssonar, í fréttamiðlum nú undanfarið, að greiningabólgan hér á landi er mjög mikil og fyrsta viðbragðið er yfirleitt að gefa lyf. Þessu þarf að breyta.