Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[13:09]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem fer fram hér í dag. Ég vil þakka heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir að vera hér og taka þátt í umræðunni. Það sem ég vildi segja hér í seinni ræðu er að ég held að komið sé að því að gerð verði stjórnsýsluúttekt á geðheilbrigðisþjónustu, hreinlega frá a til ö, en síðasta úttekt varðandi börn og ungmenni var gerð 2016 af ríkisendurskoðanda. Í dag getum við séð níu aðgerðir frá Geðhjálp og fyrsti punkturinn þar er að gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti að það sé nóg komið af tali hér í þingsal og við þurfum að fara að grípa til aðgerða.

Ég fékk svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra vegna Þroska- og hegðunarstöðvar nú í dag og það er ljóst að vandinn er vaxandi. 2016 var biðtíminn 3 til 7 mánuðir. Í dag, árið 2020, er biðtíminn 5 til 14 mánuðir og það er alveg ljóst að árlegur kostnaður eykst. Á þessu má sjá að við erum hálfpartinn komin út í skurð með þetta mál. Ég mælist til þess að við ráðumst í þessa stjórnsýsluúttekt. Það er komið nóg af tali. Við þurfum að grípa til aðgerða.