151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[14:17]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Við tökum hér fyrir gríðarlega stórt og knýjandi mál, í raun stærstu aðgerðaáætlun sem kynnt hefur verið varðandi íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu í seinni tíð. Málið fjallar um eina af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar sem á í verulegum vanda og hefur átt núna um nokkurt skeið en sérstaklega er þörfin orðin knýjandi nú að koma til móts við þessa atvinnugrein. En þessi tillaga gerir meira en það. Hún leggur drög að sóknaráætlun og uppbyggingaráformum fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu til framtíðar.

Það er sótt að greininni úr mörgum áttum samtímis þessa daga. Ég ætla að nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi þarf íslenskur landbúnaður að uppfylla fjölmargar reglugerðir, og þeim fer sífjölgandi, sem leggja miklar kvaðir og kostnað á greinina og oft og tíðum að því er virðist án þess að sams konar kvaðir séu lagðar á greinina í öðrum löndum, í nágrannalöndum, a.m.k. ekki að sama marki. Þetta skekkir auðvitað samkeppnisstöðu greinarinnar og hefur valdið mjög umtalsverðum kostnaði fyrir marga bændur og aðra matvælaframleiðendur.

Í öðru lagi hafa búvörusamningar ekki reynst greininni vel að undanförnu og ekki verið brugðist við þeim forsendubresti, ef svo má segja, sem hefur orðið frá því að drög voru gerð að búvörusamningum og þeir samþykktir, hvað sem mönnum fannst um þá eins og þeir voru á sínum tíma.

Í þriðja lagi er ljóst af stefnu þessarar ríkisstjórnar og hefur verið frá því að hún kynnti fyrst fjármálastefnu sína og fjármálaáætlun, að það er aðeins ein grein í landinu sem stjórnvöld gera ráð fyrir að muni jafnt og þétt skreppa saman og fá minni framlög, en það er landbúnaður. Á meðan framtíðarsýnin fyrir aðrar atvinnugreinar eru aukin framlög ríkisins, þær greinar sem ríkið fjármagnar að meira eða minna leyti, er þar ein undantekning sem er íslenskur landbúnaður.

Í fjórða lagi er það tollasamningur sem var gerður við Evrópusambandið á árinu 2015. Ég verð aðeins að nefna það hvernig það kom til. Ég varð svo hissa þegar þessi samningur var undirritaður af þáverandi landbúnaðarráðherra að ég man enn þá hvar ég var. Ég var á akstri í Húnavatnssýslum, var að nálgast Gauksmýri, þegar ég heyrði það í útvarpinu fyrst, ég held að það sama hafi átt við um aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, að þessi samningur hefði verið kláraður í skyndi og undirritaður í beinu framhaldi síðdegis þann dag. Það er mjög mikilvægt að taka þennan samning til endurskoðunar, eins og ég kem inn á á eftir, og sérstaklega við núverandi aðstæður að fresta úthlutun á tollkvótum sem ella má gera ráð fyrir núna í nóvember.

Í fimmta lagi hefur verið heimilaður innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum. Þetta er ekki bara spurning um atvinnugreinina, atvinnuöryggi fólks og tekjur á Íslandi, heldur einnig spurning um heilbrigðismál eins og margir sérfræðingar á því sviði reyndu að benda á með viðvörunum um áhrif þess að ráðast í þessa opnun. Þetta er orðið enn meira aðkallandi umræðuefni nú þegar kemur í ljós eða eru a.m.k. vísbendingar um, vegna landa sem hafa farið sérstaklega illa út úr heimsfaraldrinum, að það hafi hugsanlega verið afleiðing að einhverju leyti af sýklalyfjaónæmi, vegna óhóflegrar notkunar sýklalyfja í erlendum matvælum.

Í sjötta lagi hefur afurðaverð jafnt og þétt lækkað núna um allmörg misseri og ár.

Í sjöunda lagi bætast við áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hafi orðið til þess að sala hefur dregist mjög verulega saman. Á sama tíma og við í þinginu fjöllum mjög mikið um tillögur ríkisstjórnarinnar — við fjöllum um tillögur hennar frekar en stjórnarandstöðu, þannig er það nú bara — og fjöllum um hvernig ríkisstjórnin vill koma til móts við hinar ýmsu atvinnugreinar þá hefur vantað upp á að komið sé til móts við þessa atvinnugrein sem hefur átt mjög í vök að verjast og verið sótt að úr mörgum áttum, eins og ég rakti hér. Það birtast viðhorf til landbúnaðar sem gefa það til kynna að stjórnvöld séu ekki sérstaklega bjartsýn á framtíð þessarar greinar og jafnvel ekki viss um hvort þetta sé atvinnugrein eða eitthvað annað. Maður óttast auðvitað að slík viðhorf geti verið að ryðja sér til rúms í stjórnkerfinu á sama tíma og greinin þarf á stuðningi að halda.

Samkeppnisstaða gagnvart erlendri framleiðslu er svo auðvitað sérstakt áhyggjuefni. Nú þegar verið er að auka stórlega innflutning erlendra matvæla, vegna þeirra atriða sem ég nefndi, er íslenskum landbúnaði sem býr við allar þessar kvaðir, allan þennan kostnað sem ég nefndi, gert að keppa við landbúnaðarframleiðslu og matvælaframleiðslu í löndum sem fara ekki eftir sömu reglum, þar sem stóriðjubú eru jafnvel reglan frekar en undantekning, verksmiðjubú þar sem sýklalyf eru notuð í miklum mæli, og greinin ríkisstyrkt eins og landbúnaður er eðli máls samkvæmt víða en með allt öðrum hætti en hér. Íslenskir bændur á fjölskyldubúunum þurfa að keppa við risana í útlöndum sem ráða til sín vinnuafl í mörgum tilvikum á launum sem þættu alls ekki boðleg á Íslandi, sem nota aðferðir eins og þessa lyfjagjöf sem ég nefndi og ná gríðarlegri stærðarhagkvæmni með því að reka þetta sem nokkurs konar iðnað. Myndu menn ætlast til þess að einhver önnur atvinnugrein léti annað eins yfir sig ganga eins og ætlast er til af íslenskum landbúnaði? Ég held ekki að stjórnvöld teldu það hreinlega gerlegt að sýna öðrum atvinnugreinum aðra eins ósanngirni hvað varðar starfsaðstæður, hvað varðar stuðning ríkisins, hvað varðar samkeppnisstöðu við útlönd. Það má nefna ýmsar atvinnugreinar til samanburðar þar sem við leggjum áherslu á að þau lönd sem við erum í viðskiptum við uppfylli sömu kröfur og hér á Íslandi. Þegar kemur erlent vinnuafl þá ætlumst við til þess að það njóti sömu kjara og aðrir hér á landi, en þessari atvinnugrein er ætlað að keppa við vinnuafl á lágmarkslaunum í verksmiðjubúum í útlöndum.

Stuðningur við landbúnað og framlög til landbúnaðarmála hafa lækkað í mjög langan tíma í hlutfalli við landsframleiðslu, en ríkisstjórnin minnir okkur nú iðulega á að ræða málin í því samhengi. Þegar við tölum t.d. um vöxt báknsins þá hefur verið bent á að í samanburði við aukningu landsframleiðslunnar hafi báknið ekki stækkað svo mikið. En hvað með hlutdeild landbúnaðarins í útgjöldum ríkisins? Sú hlutdeild hefur lækkað jafnt og þétt og er nú kannski hálft prósent af landsframleiðslu eða um einn áttundi af því sem var fyrir kannski 30 árum. Þó gegnir þessi grein gríðarlega mikilvægu hlutverki við að viðhalda byggð í landinu, við að byggja upp aðrar atvinnugreinar, til að mynda ferðaþjónustu, við það að búa til heilnæm og góð matvæli fyrir landsmenn og spara þar með gjaldeyri svoleiðis að þessi fjárfesting upp á hálft prósent af landsframleiðslu skilar sér í rauninni margfalt til baka.

Ástandið sem nú er komið upp vegna heimsfaraldursins kallar á sértækar aðgerðir vegna þess að annars vegar setur það greinina í enn einn vandann með samdrætti í neyslu afurðanna en hins vegar má segja að það skapi ákveðið tækifæri líka því að við þessar aðstæður hafa ríki um alla Evrópu sýnt það að þau eru reiðubúin að grípa til ráðstafana til að verja atvinnuvegi sína, stöðu sína, launafólk sitt og bændur þar á meðal, með sérstökum aðgerðum sem við aðrar aðstæður hefðu e.t.v. vakið einhverjar spurningar varðandi Evrópusambandið og þær reglur sem það setur. En við þessar aðstæður hefur það bara sýnt sig að mönnum hefur verið það heimilt, menn hafa getað gripið til aðgerða fyrir utan það reglugerðarbákn. Svoleiðis að þetta er tíminn til að bregðast við og koma til móts við íslenskan landbúnað. Þörfin er augljós en einnig tækifærin og möguleikarnir sem felast í þeim rétti sem ríki hafa til að grípa til aðgerða við aðstæður sem þessar.

Íslenskur landbúnaður átti að fá að njóta ávinningsins þegar búið væri að snúa við efnahagsstöðu landsins í framhaldi af bankahruninu. Ég og fleiri lýstum því á sínum tíma, þegar unnið var að mjög stórtækum aðgerðum við að ná viðsnúningi í efnahagslífinu, að greinar eins og landbúnaður og matvælaframleiðslan þyrftu að þrauka með okkur en fengju svo njóta árangursins þegar hann næðist. Og sá árangur náðist aldeilis, mesti efnahagslegi viðsnúningur sem nokkurt ríki hefur séð í seinni tíð, en í engu hefur því verið skilað til íslenskra bænda. Raunar er samanburðurinn við aðrar stéttir sláandi. Við höfum séð metaukningu í kaupmætti, jákvæða kjaraþróun á Íslandi núna ár eftir ár með einni undantekningu sem eru bændurnir, matvælaframleiðendurnir, sem hafa orðið algerlega út undan hvað þetta varðar. Þá mætti auðvitað nefna hópa eins og eldri borgara sem hafa ekki fengið kjör sín bætt sem skyldi, en hvað varðar starfandi stéttir þá virðast bændur algjörlega skera sig úr hvað það varðar að fá ekki að njóta þeirra kjarabóta sem samfélagið hefur upplifað undanfarin ár.

Það yrði mjög erfitt að ráða bót á því ef íslenskur landbúnaður legðist af í núverandi mynd eins og því miður er veruleg hætta á við þessar aðstæður. Það yrði líka miklu dýrara fyrir samfélagið heldur en að grípa til aðgerða í tæka tíð. Þess vegna er tímabært og nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða og þær kynnum við hér í þessari stóru þingsályktunartillögu um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

Þetta eru róttækar tillögur en það er líka tilefni til að leggja fram róttækar tillögur. Það er það sem þarf til að bregðast við stöðunni sem við stöndum frammi fyrir.

Ég sé að það gengur hratt á tímann hjá mér og því mun ég ekki ná í þessari ræðu a.m.k. að rekja öll atriðin sem birtast í þessari stóru tillögu. Þau eru 24 alls ásamt ítarlegri greinargerð. Ég mun e.t.v. hafa tækifæri til að fjalla nánar um þau hér á eftir eða við síðari umr., en ég vona að þingið sé tilbúið að taka þessari tillögu fagnandi, ræða hana, flýta fyrir því að hún komist áfram í þinginu. Að sjálfsögðu munum við taka við athugasemdum og ábendingum um hvað betur megi fara frá þingmönnum og ekki hvað síst frá bændum eða öðrum sem starfa í matvælaframleiðslu. Þetta er aðgerð, þetta er áætlun sem verður að virka. Við getum ekki horft upp á íslenskan landbúnað fjara út við þessar aðstæður þegar öll athyglin er á Covid-faraldrinum og viðbrögðum við honum og mörg stór mál gleymast fyrir vikið, mál sem voru orðin knýjandi, mál sem við hefðum átt að taka á fyrir löngu hérna í þinginu en fá eru eins knýjandi og eins stór og skipta eins miklu máli fyrir framtíð byggðar í landinu og það að koma í veg fyrir frekara tjón í íslenskum landbúnaði og byggja greinina upp. Ef þetta tímabundna ástand sem við fáumst við núna verður til þess að þessi undirstöðuatvinnugrein landsins frá upphafi fjarar út þá verður tjónið af því varanlegt fyrir íslenskt samfélag.

Sóknarfærin eru til staðar, það þarf bara að nýta þau og því lýsum við í þessari þingsályktunartillögu. Hún þarf að komast hratt í gegn og fá afgreiðslu því að það má engan tíma missa við að bjarga og byggja upp íslenskan landbúnað.