151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[14:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar, sem er vitaskuld mál sem hefur verið í umræðunni hér á landi mjög lengi, árum og áratugum saman. Við horfum samt sem áður upp á það í landbúnaði hérlendis að bændur geta ekki lifað á búum sínum í mjög mörgum tilvikum og í vissum greinum þannig að þetta virðist vera viðvarandi vandamál að reyna að styrkja og efla landbúnaðinn. Þó er ekki allt í því svartnætti. Það hafa auðvitað margir bændur rennt stoðum undir rekstur sinn með alls kyns öðrum hætti sem ég ætla kannski að koma að í ræðunni líka. En það er mikill munur á t.d. landbúnaði og sjávarútvegi í þessu tilliti. Sjávarútvegur hefur byggt framlegð sína til sjómanna og útgerðarmanna og þjóðarinnar á mikilli framþróun, nýsköpun, rannsóknum og nýtingu á afurðum og er vinnulag sjávarútvegsins með því besta í heiminum, held ég að megi segja. Aftur á móti hefur landbúnaðurinn átt undir högg að sækja og ég velti fyrir mér hvers vegna. Af hverju getum við ekki byggt upp landbúnað hér sem er sjálfbær og við getum verið stolt af? Ég tel t.d. að framþróun í landbúnaði, þ.e. rannsóknir og nýsköpun, nýting afurða og tilraun til að fá sem mest út úr afurðunum, hafi ekki tekist sem skyldi þótt það hafi vissulega oft verið reynt.

Sauðkindin, ef við tökum hana út fyrir sviga, er auðvitað ekki mjög afkastamikið húsdýr, ekki verið að tala um kjötframleiðslu sauðkindarinnar, þetta eru ekki mörg kíló sem ein sauðkind framleiðir á einu ári miðað við fyrirhöfnina sem þarf að leggja í það og má alls ekki miða það við aðrar dýrategundir eða stórframleiðslu sem á sér stað í öðrum löndum, jafnvel á þessari sömu tegund, eins og í Nýja-Sjálandi. Við búum hér við harðan vetur og við þurfum að hýsa flest húsdýrin yfir stóran hluta ársins og gefa þeim fæði sjálf með tilheyrandi húsnæðiskostnaði og fæðiskostnaði, þannig að það er erfitt um vik.

Þessi tillaga gengur út á það að reyna að efla og renna frekari stoðum undir landbúnað sem allra fyrst. Við viljum jú öll, held ég, halda öllu landinu í byggð og getum ekki horft upp á, eins og undanfarna áratugi, hverja byggðina, hvern dalinn og hverja sýsluna á fætur annarri í raun og veru leggjast í eyði. Þetta horfa menn enn í dag upp á. Búum fækkar mjög hratt á vissum svæðum. Við verðum að spyrna við fótum. Við getum ekki verið þekkt fyrir að ætla okkur að leysa vandamálið með því að flytja hingað verksmiðjuframleiddar vörur, landbúnaðarafurðir frá stórþjóðum sem framleiddar eru á stórbúum við allt aðrar aðstæður, bæði veðurfarslega, út frá sjúkdómum séð, lyfjagjöf, hormónagjöf, alls kyns erfðabreytum o.s.frv. Flest þessara vopna til að auka afrakstur búa okkar höfum við ekki tekið í notkun af ýmsum ástæðum, t.d. af heilsufarsástæðum. Við getum ekki verið þekkt fyrir það að leyfa þennan innflutning óheftan, því sem næst, hingað til lands til að drepa okkar smáa landbúnað sem enn er á landinu. Við verðum að hlúa að þessari framleiðslu.

Ég ætlaði að nefna það sem bændur hafa sjálfir gert. Þeir hafa komið sér upp alls kyns aukastörfum og nýtt tækifærin, svo sannarlega. Ég hugsa að það séu ekki margir sauðfjárbændur sem lifa á sauðfjárbúskapnum eingöngu nema hann sé þeim mun stærri, sem er svo sem ekkert mjög algengt. Varðandi innflutning sem hefur aukist síðustu ár, við höfum rætt hann á þinginu undanfarnar vikur, þá er svo komið núna, segja menn mér, að t.d. innflutningur á nautakjöti, samt undir kvóta settur, veldur því þessa dagana að bændur geta ekki losað sig við sitt nautakjöt. Það er biðröð í sláturhúsin vegna þess að það er engin eftirspurn eftir íslensku nautakjöti, það er búið að flytja svo mikið inn. Menn flytja kjöt inn í svo stórum stíl að það kemur niður á íslenskum bændum. Þetta er ekki eingöngu til að fylla upp í markaðinn, fylla upp í vöntun á markaði tímabundið vegna ferðamannastraums, eitthvað slíkt, heldur kemur þetta, ef ég tek bara nautakjötið sem dæmi, niður á innlendum framleiðendum.

Mjög margir í þessum sal hafa talað fjálglega í ræðustól Alþingis um samkeppni. Þeir tala um samkeppni, frjálslyndi, neytendur o.s.frv. Að mínu mati er þarna verið að bera saman algerlega ólíka hluti. Við erum að berjast við ríkisstyrktan landbúnað í langflestum löndum og við erum að berjast við verksmiðjubú í mörgum tilvikum, stór bú við allt aðrar aðstæður en hér, með allt öðruvísi lyfjagjöf. Mjög margir erlendir framleiðendur, sérstaklega stórframleiðendur, nota sýklalyf í mjög miklu magni til að berjast við landlæga sjúkdóma sem við höfum ekki fengið alla hingað og þeir nota einnig hormónagjöf til að auka vöxt og stytta þann tíma sem tekur að bíða eftir afurðunum. Við erum að berjast við allt aðra hluti en þá sem við erum vön á Íslandi með okkar búfjárkyn sem andar að sér okkar hreina lofti og drekkur okkar hreina vatn og við þurfum að halda á lífi yfir langa vetur, innan dyra oftast nær. Með því að leyfa óheftan innflutning á kjöti og lítt takmarkaðan erum við að mínu mati að grafa okkar eigin gröf í landbúnaðarmálum. Ég held að við verðum að stöðva það áður en lengra er haldið á þeirri vegferð. Ég tala nú ekki um þá áhættu sem við tökum á því að hingað berist sjúkdómar sem við ráðum ekkert við og geta hreinlega útrýmt stofnum okkar, sem eru veikir fyrir.

Ég ætlaði að tala um margt fleira. Ég ætlaði að tala um að nýjungar í landbúnaði sem eru sannarlega og sem betur fer þekktar, eins og nýlegar fréttir um hvítlauksrækt bera vitni um. Vonandi gengur það vel. Þessi blóðtaka sem hefur færst í vöxt af merum er orðin nokkuð stór hliðarbúgrein hjá bændum. Það berast fréttir af því að hamprækt sé að aukast og af ýmsu öðru, eins og skógrækt. Skógarnir vaxa og verða vonandi tekjulind fyrir bændur í framtíðinni. Ferðamennskan er auðvitað aukabúgrein hjá mjög mörgum bændum. Þannig að bændur hafa gert sitt. Við verðum að taka þetta alvarlega, taka þessa tillögu til skoðunar. Vonandi verður hún samþykkt og við getum skotið sterkari stoðum undir landbúnaðinn í landinu.