151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þykir vænt um Evrópusambandið, og við erum ekki hér til að tala niður Evrópusambandið. Hún talar um að við þurfum að fara að samkeppnisreglum. Þá verðum við að spyrja: Hvar er samkeppnin? Hvaðan kemur hún? Jú, hún kemur, alla vega hvað varðar landbúnaðarafurðir hér, að mestu leyti frá Evrópusambandinu. Af því að mjólkuriðnaðurinn var hér til umræðu áðan get ég sagt frá því að keypti ég ost í Costco um daginn. Hann var breskur en hann var framleiddur undir merki Arla. Hverjir eru þeir? Það er stærsta fyrirtæki í mjólkuriðnaði í Danmörku sem búið er að leggja undir sig Norður-Evrópu að hluta með mjólkurframleiðslu sinni og gæti sinnt ársframleiðslu Íslands bara fyrir hádegi á þriðjudegi eða eitthvað slíkt, ef hér væri óheft samkeppni og innflutningur. Og þá kemur aftur mergurinn málsins: Það hefur engin þjóð, alla vega ekki í Evrópu, ekki heldur í Ameríku, aflagt tollvernd einhliða á t.d. landbúnaðarafurðum. Slíkt gera menn ekki vegna þess að það er heimska, vegna þess að tollskráin sem unnið er eftir er alþjóðleg, vegna þess að magntollar og verðtollar eru með ekkert ósvipuðum hætti í tollskrá sem farið er eftir í Evrópusambandinu og hér. Sem dæmi um hvernig niðurgreiðslur virka þá tóku menn upp á því í Bandaríkjunum fyrir svona 15 árum, ef ég man rétt, að niðurgreiða hrísgrjón fyrir bændur í Arkansas. Hverjum kom það niður á? Það kom niður á sjálfsþurftarbændum á Haítí sem voru að jafna sig á stórum jarðskjálfta sem þar hafði orðið þremur árum áður. Hrísgrjónin sem komu frá Ameríku voru ódýr, en bændurnir löptu náttúrlega dauðann úr skel. Græddi einhver á þessu? Já, hugsanlega neytendur þarna niður frá til skamms tíma.

Þetta var nú svona utan dagskrár. Nú á ég ekki nema þrjár mínútur eftir til að tala um grænmetið. Í þinginu hefur verið síbylja um að ráðstafanir sem gerðar voru fyrir grænmetisbændur fyrir rúmum tíu árum hafi verið svo ótrúlega flottar og vel heppnaðar. Grænmetisbændur voru settir á hillu þar sem þeir áttu að framleiða papriku, gúrku og tómata og ekkert annað. Allt annað grænmeti flæddi inn í landið eins og verið hafði. En það var bara svo helvíti gott — afsakið orðbragðið, herra forseti — að hafa grænmetisbændurna á þessari hillu. Það þurfti engar áhyggjur að hafa af þeim. Þeir voru bara ánægðir með að framleiða sína tómata og eitthvað svoleiðis. En það kom í ljós nú mjög nýlega að markaðshlutdeild íslensks grænmetis hefur minnkað um 20% á síðustu nokkrum árum vegna þess að bændur hafa farið út í aðrar tegundir, reynt að fikra sig áfram í t.d. tómatarækt o.s.frv., sem er út af fyrir sig allt í lagi. En það sem við eigum náttúrlega að gera fyrir grænmetisbændur, og við eigum að horfa á það fyrir alla bændur okkur öllum til heilla, líka neytendur, er að horfa á aðföng bænda, það er að horfa á raforkuverð. Af hverju fá ekki grænmetisbændur, t.d. ef þeir rækta undir gleri, ekki rafmagn á sama verði og önnur stóriðja? Og þegar ég segi önnur stóriðja á ég við það að á Suðurlandi einu eru um 600–800 störf í garðyrkju. Það er meira en meðalálver.

Þá segi ég aftur: Af hverju fara menn ekki í vöruþróun? Af hverju rækta menn ekki vanillu undir gleri? Grammið af vanillu hoppaði í fyrra upp í sama verð og grammið af silfri? Væri einhver hérna á móti því að rækta silfur ef hann hefði séns á því? Ég held ekki, herra forseti. Við stjórnmálamenn þurfum að skapa bændum það rekstrarumhverfi með almennum aðgerðum að þeir þurfi ekki að líta út eins og beiningamenn í augum annarra, af því að þeir eru það ekki. Íslenskir bændur eru vandvirkt og stolt fólk upp til hópa sem eru að framleiða góða vöru sem er alveg ævintýralega ótrúlegt að við skulum ekki geta selt dýru verði erlendis. Það segir ekkert um landbúnaðarafurðina, það segir bara að við Íslendingar erum mjög lélegir sölumenn. Það sem við þurfum að gera núna, og það er einmitt mergurinn málsins og inntakið í þessari ályktun, er að skapa sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað, breiðsíðu. Hverjum verður það til heilla? Auðvitað bændum og sveitunum sem þeir búa í, en líka okkur neytendum því að við fáum þá fjölbreyttari íslenska vöru sem við vitum hvaðan er. Við vitum að hún er ekki full af hormónum, við vitum að hún er ekki ræktuð með slæmu vatni, við vitum að hún er ekki pökkuð í eitur. Það er það sem við neytendur högnumst á, herra forseti.