151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta andsvar. Hv. þingmaður, við erum í fjölþjóðasamstarfi. Við höfum verið í fjölþjóðasamstarfi svo lengi sem ég man eftir mér og það er nokkuð langt, og enn lengur en það. En spurningin er: Erum við betur komin í stærri samstæðu? Kannski værum við rosalega fegin ef við værum 0,1% eigendur að Icelandair. Við hefðum ekki mikil áhrif en við værum kannski alveg sallaánægð með það. Hluti af minni fjölskyldu hefur búið í 16 ár í Danmörku. Danir eru 15 sinnum fleiri en Íslendingar og Danir hafa ekki áhrif innan Evrópusambandsins frekar en ég veit ekki hvað. Ég hef verið spurður af þeim hluta fjölskyldu minnar sem hefur búið í Evrópusambandinu í 16 ár: Hvað eruð þið að pæla í því að fara inn í Evrópusambandið? Hvað haldið þið að þið fáið fram? Haldið þið að það verði hlustað eitthvað á ykkur? Þið eruð 0,000X% af mannfjöldanum í Evrópu.

Við verðum bara eins og fátæki frændinn sem er hleypt inn af gæsku. Við verðum bara eins og börn á Viktoríutímanum, okkur verður sagt að tala þegar talað er við okkur. En að öðru leyti eigum við bara að hafa hægt um okkur. Áhrif okkar af því að fara inn í þetta samband verða minni en núll, miklu minni.

En ég segi aftur: Við erum í fjölþjóðasamstarfi. Af hverju erum við búin að gera samning um dreifingu á skyri í Japan? Það er út af því að við erum í fjölþjóðasamstarfi. Japanir eru 130 milljónir, það er enginn smámarkaður. Asía öll er náttúrlega nokkrir milljarðar. Af hverju erum við að múra okkur inn í samband sem er að liðast í sundur? Til hvers? Það er eins og að gerast háseti á Titanic rétt áður en það fer úr höfn. Nei, ég held ekki, hv. þingmaður. Ég held að við eigum að hafa opinn hugann, opinn faðminn, fyrir öllum heiminum, ekki bara þeim útnára sem Evrópa er að verða núna.