151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta voru athyglisverð orð. Mér sýnist þetta farið að verða svolítið línan hjá Miðflokknum og það er bara ágætt að hún verði skýr, en það er að tala niður Evrópu, okkar dyggustu samstarfsþjóðir í gegnum árin og áratugina. Það samstarf hefur m.a. stuðlað að því að við Íslendingar erum það sem við erum í dag, í gegnum það fjölþjóðasamstarf sem EES-samningurinn er. En við vitum að Miðflokkurinn vill endurskoða það samstarf.

Hv. þingmaður sagði að við myndum engin áhrif hafa innan Evrópusambandsins. Með sömu rökum má spyrja: Af hverju erum við þá í varnarsamstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins? Af því að við höfum engin áhrif? Af hverju? Af því að við teljum hagsmunum okkar betur borgið í því fjölþjóðasamstarfi en að standa fyrir utan það, að varnar- og öryggishagsmunum okkar Íslendinga sé betur borgið í slíku fjölþjóðasamstarfi frekar en að standa utan þess.

Ég segi bara: Hvers konar metnaðarleysi er það að segja að Ísland hafi ekki rödd í fjölþjóðasamstarfi? Við höfum séð það, og skýrslur á skýrslur ofan hafa staðfest það, að efnahagsleg og félagsleg velsæld okkar Íslendinga hefur aukist með hverju skrefi sem við höfum stigið inn í fjölþjóðlegt samstarf, hvort sem er á sviði EFTA, NATO eða í gegnum EES-samninginn og þá með aðildinni að innra samstarfinu. Sýnum smámetnað, sýnum smákraft og trú á okkur sjálf frekar en nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að segja.

Ég tek undir að það er gaman að fylgjast með uppgangi skyrsins, en ég hefði gjarnan viljað sjá framsýni íslenskra landbúnaðarráðherra í gegnum tíðina, að þeir hefðu tryggt okkur Íslendingum einkaleyfi á orðinu skyr og framleiðslu skyrs, alveg eins og kampavínsbændurnir í héraðinu í Frakklandi og Coca Cola, fyrst verið var að minnast á það. Það er verið að framleiða skyr víðs vegar um heiminn sem er að því leyti til jákvætt en það er ekkert endilega undir íslenskum merkjum. En það er hins vegar verið að nota íslenska vörumerkið okkar til að selja annars ágætar afurðir. Ég hefði gjarnan viljað sjá einhverja framsýni þá, en það var ekki. Þá reynum við að fara þá leið sem verið er að fara núna og ég held að það séu mjög spennandi og mörg tækifæri tengd þessari skyrsölu. En ég vil benda á að slíkt gerist með samkeppni og samvinnu og frelsi. Þannig er okkar hagsmunum best borgið.