151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir þetta andsvar og enn meira en áðan. Ég er mjög feginn að hún tók varnarsamstarfið sem dæmi um að við hefðum engin áhrif. Jú, hv. þingmaður, vissulega höfum við áhrif í varnarsamstarfinu vegna þess að þar erum við að bjóða fram verðmæti sem eru svo mikils virði í augum samstarfsaðilanna að við fáum alvörusæti við borðið en sitjum ekki úti á enda og hirðum brauðmola. Það er náttúrlega þyngra en tárum taki að um þessar mundir er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að beygja sig undir Keflavíkurgöngur Vinstri grænna og neitar peningum í uppbyggingu í Helguvík, af því að peningarnir sem á að borga með eru grænir, það eru dollarar. Það er voðalegt. Hér kemur aðmíráll um daginn og vill aukið samstarf vegna þess að hagsmunir okkar, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, fara saman og aukin kafbátaleit hér er náttúrlega okkur til góða vegna þess að það eru hérna kafbátar í hverjum flóa og firði fyrir austan. Auðvitað hafa menn fyrir vestan haf áhyggjur af því þannig að þarna fara hagsmunirnir saman.

Hv. þingmaður talaði um skort á framsýni. Nú kann ég ekki sögu skyrsamninganna út í hörgul af því að ég vinn ekki við það. Ég veit að það tapaðist tækifæri til að fá einkaleyfi á skyri í Ameríku en það er komið í Evrópu, mjög víða, og í Asíu þannig að við erum ekki búin að tapa spilinu algjörlega. Svo er líka spurning hvort við getum á einhverjum tímapunkti farið sömu leið og Grikkir og sagt: Þetta er afurð sem er hvergi til nema á Íslandi. Það gerðu þeir varðandi fetaostinn. Það er spurning um það, og þar er verkefni fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra, sem nú er farinn úr salnum, að vinna að því með oddi og egg að við fáum viðurkenningu á því að skyr sé íslensk afurð frá A til Ö og að vörumerkið skipti í sjálfu sér ekki máli heldur uppruni afurðarinnar. Þar er verk að vinna.