151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég vil bara rétt í lokin þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu, ekki hvað síst hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem var með svona aðra sýn á þessi mál en var þó, fannst mér, almennt bara jákvæð gagnvart þessari tillögu. Vonandi verða þá Viðreisn og aðrir flokkar til í að flýta þessu máli í gegnum þingið því það veitir sannarlega ekki af því.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði mikið um samkeppnismál og umræðan snerist aðeins um Evrópusambandið eins og stundum þegar hv. þingmenn Viðreisnar ræða málin, það vill þróast í þá átt. En þá er rétt að minna á að Evrópusambandið er fyrst og fremst tollabandalag, það snýst um tollmúra í kringum Evrópu. ESB leggur meiri tolla á innfluttar vörur, þá er ég ekki bara tala um matvæli heldur vörur almennt, en Íslendingar. Ísland er opnara ríki hvað varðar alþjóðaviðskipti heldur en ESB. Ef meginmarkmiðið er að vera með sem opnust viðskipti ættu hv. þingmenn Viðreisnar líklega að vera bara sáttir við að vera utan þessara tollmúra Evrópusambandsins en gera samninga við ESB og lönd í öðrum heimshlutum um gagnkvæm viðskipti.

Vandinn hvað varðar þá samninga sem hafa verið gerðir, sérstaklega nýverið, í tollamálum um matvæli er að þar á sér einmitt ekki stað samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Þar eru íslenskir bændur látnir keppa við bændur og reyndar ekki bara bændur heldur verksmiðjur í öðrum löndum, þeir þurfa að uppfylla hin ýmsu skilyrði, eins og ég rakti hér áðan, og leggja í mikinn kostnað til að uppfylla allar kvaðir og kröfur en þurfa svo að keppa við fólk sem er á launum og starfar við aðstæður sem við myndum aldrei sætta okkur við hér á Íslandi. Í hvaða annarri atvinnugrein teldist þetta ásættanlegt, herra forseti? Ég held að ef menn færu að stunda slíkt í öðrum atvinnugreinum eða flytja inn fólk til að láta framleiðsluna fara fram á Íslandi, en á kjörum og við starfsaðstæður sem boðið er upp á í öðrum löndum, yrðu menn fljótir að grípa þar inn í.

Það er sannarlega engin undantekning að ríkið telji sig þurfa að vernda sinn landbúnað með m.a. tollum. Það er regla, ekki undantekning. Það hefur hins vegar fjarað undan slíkri vernd hér á Íslandi að því marki að atvinnugreinin er hreinlega komin í hættu og svo bætist allt hitt ofan á sem ég rakti í fyrri ræðu. Það er samkeppni í íslenskri matvælaframleiðslu. Það er líka samkeppni í mjólkurframleiðslu og rekin hér ólík mjólkurbú. Það gilda samkeppnislög um mjólkina nema þar sem hægt er að ná hagræðingu og það gagnast öllum. Það er heimiluð hagræðing sem nýtist neytendum, nýtist samfélaginu í heild og bændum líka. Þeir fá kannski, ef ég man rétt, 90 kr. á kíló hér en bændur, eða framleiðendur réttara sagt, í Evrópu fá 40–70 kr. Auðvitað þyrftu bændur að hafa miklu meiri tekjur á Íslandi og það er m.a. tekið á því eins og svo fjölmörgu öðru í þessari þingsályktunartillögu, þessari heildstæðu þingsályktunartillögu sem tekur á vanda og tækifærum greinarinnar í heild.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að það sé fullt tilefni til að krefja ríkisstjórnina um samningsmarkmið í viðræðunum við Breta varðandi tollamál og ekki hvað síst á sviði matvæla. En það er a.m.k. ljóst að eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eru forsendur þessa tollasamnings, sem var ekki góður fyrir, algerlega brostnar. Við getum ekki látið það henda að við þessar óvenjulegu aðstæður út af heimsfaraldri eða einfaldlega sinnuleysi tapist sú verðmætasköpun og sá menningararfur sem fylgir íslenskum landbúnaði og hefur gert frá landnámi. Hér voru nefnd erlend mjólkurbú, t.d. Arla, danski framleiðandinn, sem gæti með umframframleiðslu í einu af sínum búum klárað íslenska markaðinn og þá yrði ekki aftur snúið. Við Íslendingar verðum eins og aðrar þjóðir að verja matvælaframleiðslu okkar og höfum enn ríkari ástæðu til þess en önnur lönd því að við höfum hér þessa hreinu, heilnæmu framleiðslu og auk þess óvenjumikið mikilvægi landbúnaðar við það að viðhalda byggð um allt land og verða þar með undirstaða hinnar ýmsu verðmætasköpunar.

Við viljum auðvitað að matvælaverð til neytenda sé sem lægst og það er lægra en ella vegna þess að með því að styðja við landbúnaðarframleiðsluna hér er um leið verið að styðja við neytendur. Samanburður á matvælaverði á Íslandi og annars staðar breytist nú oft töluvert eftir gengi. En ef litið er til þess hlutfalls sem fólk þarf að borga fyrir matvæli annars vegar og aðra útgjaldaliði hins vegar er hlutfallið lágt á Íslandi. Fólk er að greiða hlutfallslega lítið af tekjum sínum fyrir íslenska matvöru miðað við kostnað við matvælakaup annars staðar. Hver sem fer til útlanda og skoðar sig um þar í búðum getur sannreynt það að oft og tíðum er verðið hærra erlendis. Ég nefni sem dæmi New York, þar sem ég var, það eru komin einhver ár síðan, en gerði mína eigin könnun á matvælaverði. Sérstaklega voru mjólkurvörur í öllum tilvikum dýrari en á Íslandi. Það er kannski vegna þess að við höfum náð að búa til þetta kerfi sem leyfir hagræðingu.

En ég tek undir með þeim sem benda á að bændur þurfa að fá stærri hlutdeild í því sem neytandinn greiðir fyrir matvælin. Oft hefur það orðið raunin að smásalinn, stórverslanirnar ganga of langt í því að pína niður verð til bænda en leggja engu að síður ríkulega á vöruna þegar hún er seld neytendum. Athuganir og rannsóknir hafa sýnt það, m.a. í Finnlandi, að aukinn innflutningur skilar sér ekki endilega í lægra verði, jafnvel þvert á móti, eins og í þessu finnska tilviki þar sem aukinn innflutningur þýddi einfaldlega enn meiri álagningu á vörurnar. Af því varð auðvitað tap fyrir neytendur en líka þjóðhagslegt tap. Við megum ekki gleyma þjóðhagslegu mikilvægi þessarar atvinnugreinar sem fyrir ekki nema rúmlega áratug bjargaði líklega Íslandi frá gjaldþroti þegar við áttum í mesta vanda með að skrapa saman nægum gjaldeyri til að flytja inn nauðsynjavörur, lyf, olíu og annað. Það mátti ekki tæpara standa. Ef ekki hefði verið fyrir þann gjaldeyrissparnað upp á kannski 50 milljarða sem íslensk framleiðsla tryggir samfélaginu hefðum við getað lent öfugum megin og átt mjög erfitt uppdráttar í framhaldinu. Það stóð til að verðlauna þessa atvinnugrein fyrir það, þegar við værum búin að vinna okkur upp úr áhrifum bankahrunsins, en enn er beðið eftir því að það skili sér.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir velti fyrir sér hvort málið ætti að fara til utanríkismálanefndar, sem mér finnst nokkuð sérkennilegt, en hv. þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa svo sem verið að endurskilgreina landbúnað að undanförnu og jafnvel talið að þetta væri ekki atvinnugrein, heldur að einhverju leyti frekar hobbí. Ég veit ekki til hvaða nefndar málið ætti að fara ef menn líta svo á að hér sé um að ræða þingsályktunartillögu um hobbí. En sú er auðvitað ekki raunin. Þetta er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar allt frá upphafi, grein sem hefur haldið lífi í okkur bókstaflega um aldir og er mikilvæg fyrir samfélagið á allan hátt, á fjölbreytilegan hátt. Því er mikilvægt að bregðast við nú þegar þessi grein er lent í stórkostlegri vörn, stórkostlegum vandræðum, grein sem hefur þó gríðarleg tækifæri, eins og rakið er í þessari góðu þingsályktunartillögu sem ég vona að fái skjóta meðferð í þinginu.

Að því sögðu legg ég til að tillagan gangi til hv. atvinnuveganefndar.