151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst bæði hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafa talað af mjög miklu skilningsleysi um rekstur stærri sveitarfélaga og þá mikilvægu nærþjónustu sem þar er verið er að sinna. Tekjustofnar sveitarfélaga eru þrír: Jöfnunarsjóður, útsvarstekjurnar og svo eru það fasteignaskattarnir. Auðvitað er tekið tillit til þess þar hvort þau sveitarfélög sem fá úr jöfnunarsjóði nýta útsvarsprósentuna eða ekki. Miðað er við að allir vinni með sömu prósentu og mér finnst það í rauninni sanngjarnt. En það sem við erum að segja hér er að það getur ekki gengið og er ekki ásættanlegt, ekki fyrir íbúa landsins eða atvinnulífið og upptaktinn upp úr þessari kreppu, að koma ekki til móts við sveitarfélögin í þessari erfiðu stöðu. Auðvitað er það rétt sem hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála sagði hér í sérstakri umræðu í gær, að staða sveitarfélaganna er misjöfn í kringum landið, það er þannig. En sum eiga augljóslega í slíkum vanda að það verður að koma til móts við þau. Við segjum hér í þingsályktunartillögu okkar að við viljum að það gerist með tvennum hætti, það verði bæði í gegnum jöfnunarsjóðinn, þar sem verið er að taka á ákveðnum þáttum, en einnig hlutfallslega út af útsvarstekjufallinu, sem standa á undir þjónustunni við íbúana. Síðan er meira að segja krafa á sveitarfélögin að þau lækki fasteignaskattana og í næsta andsvari segi ég meira um þá stöðu.