151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð um daginn fór Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, minnir mig, yfir stöðu sveitarfélaganna í heild og sagði að fyrir Covid hafi þau almennt séð verið vel rekin. Að sjálfsögðu er staða sveitarfélaga mismunandi og ólíkt bábiljunni sem maður heyrir hérna, að það sé nú Reykjavík sem sé verst í því, þá er Reykjavík samt með lægra skuldahlutfall og hærra eignarhlutfall en sveitarfélögin í kring og þó er ekkert verið að garga á þau. Almennt séð hafa sveitarfélögin verið vel rekin, meira að segja þótt dregnar séu frá einskiptistekjurnar sem ríkið hefur fengið út af slitabúum o.s.frv. þá hefur skuldaþróunin hjá sveitarfélögum og ríkinu verið mjög svipuð. Krónutalan hefur hækkað en skuldahlutfall hefur minnkað af því að verg landsframleiðsla hækkaði. Það er mjög áhugavert að skoða það í öllu þessu samhengi að í góðærinu hefði hvorki ríkið, nema kannski út af einskiptistekjunum, né sveitarfélög, sérstaklega ekki sveitarfélögin, þau eru með þyngri þjónustu, getað gert betur en þetta í góðæri. Þau eru í rauninni sjálfbær í góðæri en tekjustofnar þeirra eru ekki sjálfbærir í venjulegu árferði og hvað þá í niðursveiflu. Þetta hefur verið áratugalangt vandamál sem birtist fyrir mér í rauninni á þann hátt að ríkið vill halda þessari stöðu af því að þá hefur það ákveðið vald gagnvart sveitarfélögunum. Það er sem sagt ákveðið valdamisvægi þarna á milli og ríkið getur sagt sveitarfélögunum að gera hitt og þetta í skiptum fyrir smápening til þess að rétta stöðuna, eins og t.d. að sameinast. Lögþvinganir á sameiningu sveitarfélaga eru grunsamlegar hvað þetta varðar, finnst mér.