151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu um þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta gefur tilefni til að ræða stöðu sveitarfélaganna og hvernig þau eru í íslensku samfélagi og hvaða hlutverki þau hafa að gegna, og ég er sammála flutningsmanni um að það er afar mikilvægt. Ég ætla hins vegar ekki að fara neitt í gegnum tillögurnar lið fyrir lið. Þær eru margar áhugaverðar og algerlega þess virði að íhuga og ræða. Það vekur athygli mína þessi vangavelta um að ríkið eigi að koma beint til móts við sveitarfélögin vegna lækkunar á tekjum með viðbótarframlagi. Mér finnst þetta vel geta verið eitthvað sem þarf að skoða og þá í samhengi við umræðu um tekjustofna sveitarfélaga. Mér finnst þó að það þurfi að vera með þeim hætti að ríkið sé til að mynda ekki að koma með sama hætti inn í stuðning til sveitarfélaga sem velja það sjálf að vera með útsvarsprósentu sína í lágmarki. Ég held að það ætti þá a.m.k. að vera einhvers konar skilyrðing hvað það varðar, þ.e. að áður en ríkið fer að færa sveitarfélögunum fjármuni þá sé þetta skoðað.

Hugmyndin um sérstakan lánaflokk, ef ég skil tillöguna rétt, er mjög áhugaverð. Ég skal játa það án þess að fara að vitna í eitthvert fólk úti í bæ. Ég hef líka heyrt þessa hugmynd frá sveitarstjórnarfólki og ég held að hún sé algerlega skoðunarinnar virði. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur hér áðan, að á svona tímum eins og nú eru er fullkomlega eðlilegt að sveitarfélögin hafi aðgang að lánsfjármagni, ef þau þurfa á því að halda, á sambærilegum kjörum og ríkisvaldið. Ég tala nú ekki um ef ríkisvaldið gerir beinlínis ráð fyrir því að sveitarfélögin skuldsetji sig, þá þarf það að vera. Það er áreiðanlega hægt að finna leiðir til að láta þetta raungerast þannig að sveitarfélögin hafi raunverulega þennan aðgang að fjármagni.

Hér er líka talað um Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er líka mjög fín hugmynd að efla hann. En vandi framkvæmdasjóðsins er því miður sá, og hefur verið alveg frá því í síðasta hruni, skulum við segja, að engin ríkisstjórn hefur valið, og þar er engin undanskilin, hvorki núverandi ríkisstjórn, ríkisstjórnin í hruninu né ríkisstjórnirnar sem voru þar á milli, að halda sig við þessa skerðingu á fé framkvæmdasjóðsins og setja inn í rekstur. Það væri nú kannski það skref sem við ættum að stíga, að hætta þessari, hvað á að kalla það, undanþágu sem við höfum haldið okkur við þarna og leyfa framkvæmdasjóðnum að fá þá peninga sem hann raunverulega á að fá í framkvæmdir. Ég er sammála flutningsmönnum í því að það skiptir sannarlega máli að það sé gert.

Menn tala um að sveitarfélögin hafi ekki nægilega tryggar tekjur og það kann vel að vera. Þær eru samt í öllum grundvallaratriðum sömu tekjustofnarnir og ríkisvaldið hefur, þ.e. sveitarfélögin fá ríflega þriðjung af tekjuskatti einstaklinga og það er ekki svo lítil upphæð. En eins og ég nefndi áðan velja sum sveitarfélög hins vegar að nýta sér ekki alla heimildina, það er kannski hluti af vandanum. Umræðan um tekjustofna sveitarfélaga, hv. þingmenn hafa vafalítið heyrt mig tala um það áður, þarf alltaf að vera vakandi, eins og ég nefndi í ræðu minni hér fyrr í dag. Það samtal sem þarf að vera á milli þessara stjórnsýslustiga, ríkisins og sveitarfélaganna, þarf að vera lifandi og virkt. Við þurfum að geta gengið að því samtali algjörlega með opnum huga á báðum endum. Ríkið þarf að hleypa sveitarfélögunum inn í umræðuna um tekjustofna. Einn af þeim gæti til að mynda verið bensín- og olíugjald, bara svo að dæmi sé tekið. Annar gæti hæglega verið aðgangur að fjármagnstekjuskatti, hlutdeild sveitarfélaganna í fjármagnstekjuskatti. Það er annað dæmi sem hefur stundum verið rætt að gæti verið skynsamlegt að skoða.

En allt byrjar þetta á samtali á milli aðila. Það er rétt að vekja athygli á því að þar sem ég sit ekki í þessari ágætu nefnd, hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þá vona ég að hv. þingmenn, sem þar eiga sæti, taki þessar vangaveltur mínar með sér inn í umræðuna í nefndinni.