151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræddum málefni sveitarfélaganna í gær, góð umræða sem hæstv. ráðherra málaflokksins tók þátt í. Það er auðvitað svo að sveitarfélögin spila risastórt hlutverk í samfélaginu og jafnvel meira í daglegu lífi fólksins í landinu. Þjónusta þeirra er nærþjónusta sem skiptir alla mjög miklu máli. Þess vegna er mikilvægt að sveitarfélögin geti áfram, þrátt fyrir þetta mikla áfall sem við erum að öll að lenda í, sinnt hlutverki sínu. Með því er ég að segja að það er full ástæða til að við ræðum hér málefni sveitarfélaganna en mér finnst líka mjög mikilvægt að við ræðum það á þeim forsendum að sveitarfélögin eru sjálfstæð og að við nálgumst þau á jafnræðisgrunni. Með öðrum orðum er ég að reyna að segja að mér finnst mikilvægt að í þessum sal séu sveitarfélögin ekki töluð niður. Þess vegna styð ég allt samtal við sveitarfélögin og samvinnu en þykir sjálfstæði þeirra einnig mjög mikilvægt.

Að því sögðu gagnast stór hluti af þeim aðgerðum sem ríkisvaldið hefur nú þegar farið í sveitarfélögunum jafnt sem heimilunum í landinu og atvinnulífinu, t.d. hlutabótaleiðin og framlenging á tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Auðvitað skiptir þetta mjög miklu máli fyrir sveitarfélögin og höggið á þeim í skatttekjum væri enn meira ef ekki hefði verið farið í slíkar aðgerðir. Þá er ástæða til að nefna að við gerðum sérstaklega breytingu hér þannig að átakið Allir vinna henti líka sveitarfélögunum. Því er kjörið tækifæri þegar talað er um fjárfestingar sveitarfélaganna núna að það átak sé nýtt til að mynda í alls konar viðhaldsverkefni sem því miður var dregið verulega úr í síðasta hruni. Ég held að allflest sveitarfélög hafi glímt við það á allra síðustu árum að það er einfaldlega ekki gott að fresta viðhaldinu.

Það er einn punktur í þessar tillögu sem mér finnst mjög áhugaverður. Hér eru átta punktar og sumir eru áhugaverðir, aðrir kannski síður. En það er þetta varðandi opinberu innkaupin. Ástæðan fyrir því að ég er að höggva sérstaklega í það er að ég hef velt því lengi fyrir mér hvort við þurfum að aðlaga þau lög með einhverjum hætti. Ég held að það eigi sér stað ótrúlega mikil sóun í kerfinu við það að opinberir aðilar, og þá sérstaklega sveitarfélögin og byggðasamlög þeirra, ég þekki svolítið vel til þar, reyni einhvern veginn að fóta sig innan þessara laga. Það er meira og minna allt kært, sérstaklega í ákveðnum atvinnugreinum, og það verður oft til þess að fresta framkvæmdum. Ég get nefnt örlítið dæmi síðan í sumar úr sveitarfélaginu mínu, sem er almennt mjög vel hirt, en við íbúar tókum allt í einu eftir því í vor að grasið var ekki slegið. Það var vegna þess að útboðið hafði verið kært og þá liðu bara og biðu margar vikur þar sem ekki var hægt að slá. Sem betur fer lagaðist það fljótt. Ég hef því verið áhugamanneskja um að við skoðum lög um opinber innkaup hvað þetta varðar.

Ég get líka nefnt önnur dæmi eins og heilbrigðisþjónustuna. SÁÁ hefur bent á þetta, Reykjalundur og fleiri, varðandi lög um opinber innkaup, að ráðherra sé í rauninni uppálagt að bjóða út þessa þjónustu og það á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé ekki eitthvað sem við þurfum að laga í þessu umhverfi. Reyndar er það textinn í greinargerðinni sem situr svolítið í mér því að ég kannast ekki við það að viðmiðin séu svona ólík hjá ríki og sveitarfélagi þegar kemur að útboðsferlinu. Ég beini því til nefndarinnar sem fær málið að fara sérstaklega yfir það. Ég var að lesa leiðbeiningarrit frá fjármálaráðuneytinu en gat í fljótu bragði ekki séð að komið væri inn á þetta. Ég minnist þess þó síðan ég var á sveitarstjórnarstiginu að það er yfirleitt þannig að alla vega stærri sveitarfélögin eru með reglur um innkaup og oft og tíðum eru viðmiðunarfjárhæðirnar þar lægri en lögin sjálf segja til um, þ.e. sveitarfélögin hafa viljað ganga enn lengra en lögin í því að bjóða út eða fá tilboð í bæði verk og vörur sem keyptar eru. Þetta er auðvitað til komið vegna þess að í gegnum tíðina hefur sveitarfélögum oft verið legið á hálsi að þar sé eitthvað misjafnt í gangi, að einhverjum sé umbunað umfram annan. Maður kannast nú við úr minna sveitarfélagi stöðugar sögusagnir um að þessi eða hinn verktakinn fái alltaf öll verkin og þess háttar. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin að hafa þetta eins gagnsætt og kostur er og þar af leiðandi er besta leiðin alltaf þegar verið er að fara með opinbert fé að leita hagstæðustu tilboðanna og að öllum sé ljóst hverjir eru að bjóða í það. Þetta var eitthvað sem ég hnaut um og vildi segja hérna.

Ég held að við þurfum að halda áfram mikilvægu samtali við sveitarfélögin um sjálfstæði þeirra og um sjálfbærni sveitarfélaga, um það að sveitarfélögin hafi nægjanlega tekjustofna, bæði til að komast af í góðæri og kreppu. Ég hef litið á þetta sem ákveðinn fíl í herberginu, eitthvað sem er á milli ríkis og sveitarfélaga, sem við höfum verið að glíma við. Eina meðalið og leiðin sem ég kann í slíku er hreinlega að búta hann niður.

Þá vil ég nefna í því samhengi málefni fatlaðra sem enn er ágreiningur um og óþolandi að við séum alltaf að ræða sömu málin aftur og aftur. Þess vegna segi ég að við þurfum að einhenda okkur í það að tryggja að sveitarfélögin hafi réttmæta fjármuni til að sinna þeirri mikilvægu þjónustu. En svo verðum við líka að átta okkur á því að við í þessum sal erum oft og tíðum að samþykkja lög sem leiða til reglugerða þar sem enn er aukið á kvaðirnar á þjónustu sem sveitarfélögin veita og þar af leiðandi á kostnað sem þeim er ætlað að standa undir. Við megum örugglega öll taka eitthvað til okkar í þeim efnum.

Annað sem ég vil nefna sem er stöðugt þrætuepli á milli ríkis og sveitarfélaga, en það er rekstur hjúkrunarheimila. Það er alveg skýrt að hjúkrunarheimili eins og þau eru skilgreind í dag, með þeirri þjónustu, eru heilbrigðismál og þar af leiðandi málaflokkur sem tilheyrir ríkinu. Það er gott og gilt að á einhverjum stöðum hafi sveitarfélög séð eða sjái í dag einhvern hag í því að sjá um þennan rekstur sem hluta af nærþjónustunni og með einhverjum samlegðaráhrifum við félagslega heimaþjónustu eða hafa mögulega samninga við heilsugæsluna eða eitthvað þess háttar. En mörg mjög stór sveitarfélög hafa einfaldlega sagt við heilbrigðisráðherra: Gjörðu svo vel, taktu þetta verkefni aftur. Þau daggjöld sem eru látin fylgja duga bara ekki fyrir rekstri þessara heimila. Í staðinn fyrir að við séum að sóa peningum, tíma aðila, annars vegar á sveitarstjórnarstiginu og hins vegar í heilbrigðisráðuneytinu og sjúkratryggingum, að takast einhvern veginn á um þessa samninga fram og til baka, þá fyndist mér eðlilegast að ríkið hreinlega tæki við þessum rekstri, ekki til að reka það sjálft, því að ég er ekki talsmaður þess, heldur til að bjóða þetta út og gera samningana beint við þá aðila sem best þekkja til í rekstri hjúkrunarheimila. Það eru hérna stór félagasamtök sem gera það býsna vel og þess vegna held ég að best sé að þau geri sjálf samninga beint við sjúkratryggingar og sjái um það en við hættum að hafa sveitarfélög sem einhvers konar millistykki þarna á milli.

Það er auðvitað margt meira sem hægt væri að ræða hér um sveitarfélögin en ég ætla að láta þetta nægja að sinni. Mér fannst gott að heyra það hjá hæstv. ráðherra málaflokksins í gær að sú nefnd, sem fór yfir stöðu sveitarfélaga hér fyrr á árinu og skilaði af sér skýrslu í sumar, hefur verið kölluð aftur saman. Ég held að við þurfum að fylgjast statt og stöðugt með sveitarfélögunum og eiga gott samtal við þau á öllum stundum. Ég kannast ekki alveg við þá orðræðu sem stundum er höfð hér uppi um að sveitarfélög séu svo illa rekin og þau séu að sólunda fé og þess háttar. Langflest sveitarfélög í landinu eru býsna vel rekin og hafa notað þessa miklu uppsveiflu og lengsta hagvaxtarskeið sögunnar í það einmitt að greiða niður skuldir. Þar af leiðandi eru þau betur í stakk búin til að takast á við þá kreppu sem við glímum því miður við núna. Í gegnum hana verðum við að komast öll saman.