151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður var greinilega ekki staddur á fjárlaganefndarfundi sem var hér fyrr í vikunni þar sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu kvörtuðu sáran undan samningum þar sem þau eru að glíma við ríkið. Það er ekkert endilega svo rosalega góð saga.

En það sem ég ætlaði að tala um fyrst er samtalið við sveitarfélögin um sjálfstæði þeirra, spurninguna: Eru sveitarfélög sjálfstæð? Nýlega vorum við að glíma við mál um lögþvingun sameiningar sveitarfélaga. Þá velti ég því dálítið fyrir mér, og fæ það ekki alveg til að ganga upp, hvernig við getum, ef sveitarfélögin eru sjálfstæð, lögþvingað þau í sameiningar. Væntanlega þarf íbúakosningu eins og alltaf þegar um sameiningu er að ræða. Og hvað ef kjósendur segja nei, verður þá sameining?

Mér finnst núverandi ástand nefnilega upplýsa dálítið vel um einmitt þessar brotalamir í sambandi ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög eiga að vera sjálfstæð miðað við þá samninga sem við höfum gert um sveitarstjórnarstigið sem slíkt. Það samtal sem við höfum átt í fjárlaganefnd um hvernig samræður ríkisins hafa verið við sveitarfélögin um framkvæmd laga um opinber fjármál er einhliða. Það er mjög lítið um tvíhliða samtal því að þegar allt kemur til alls er ríkið með öll tromp á hendi. Það getur bara sagt: Nei, heyrðu, þið verðið bara að lögþvinga. — Við erum að skrifa lög hér þótt að mínu mati gangi það gegn stjórnarskrá og þeim sáttmálum sem við höfum skrifað undir eða skammtað úr hnefa í gegnum jöfnunarsjóði ef svo ber undir. — Ef þið sameinist, þá kannski, hver veit, gefum við ykkur aðeins meiri peninga.