151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum að einhverju leyti svolítið komin að kjarnanum. Ég held nefnilega að það sé mjög mikilvægt að við látum ástandið sem varir núna ekki eyðileggja það samtal sem við þó erum komin af stað með varðandi sveitarfélögin. Ég tek undir og mér finnst auðvitað miklu eðlilegra að í stað þess að við séum einhvern veginn að rétta sveitarfélögunum einhvers konar ölmusu, eins og hv. þingmaður talar um, þá hafi þau sjálfstæða tekjustofna. En það er reyndar aðeins hægara sagt en gert. Við höfum rætt gistináttagjaldið í töluverðan tíma og ég veit að það myndi litlu skila núna, það skilar litlu til ríkisins og myndi væntanlega ekki skila miklu til sveitarfélaganna. En það er ein leið sem hefur verið horft til. Þá þarf auðvitað líka að horfa til svæða. Það skiptir auðvitað máli. Pinkulítil sveitarfélög geta verið með risastór hótel. Eiga þau þá að fá allt gistináttagjaldið en stóru sveitarfélögin, sem þjónusta ferðamanninn raunverulega en eru ekki með gistinguna, ekkert að fá? Þetta þyrfti auðvitað að taka til einhvers konar landsvæða.

Ég veit ekki með virðisaukaskattinn. Það hefur komið upp umræða á vettvangi sveitarfélaga, t.d. um veggjöld og að þau fái líka að stýra meiru varðandi samgöngumannvirki á sínu svæði og annað þess háttar. Ég held að tækifærin hér séu mjög mikil og að við þurfum að þroska þetta samtal verulega. Ég held einmitt að það sé betra að við höldum áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið, að þróa samtal um sjálfstæða tekjustofna sveitarfélaganna í stað þess að ráðast í einhverjar plásturs- eða meðalaaðgerðir akkúrat núna. Það kann vel að vera að einhver sveitarfélög séu í þannig stöðu að við þurfum að gera það og við höfum þegar gert það. Þess vegna sagði ég líka áðan að við ættum auðvitað að fylgjast statt og stöðugt með sveitarfélögunum. En sem betur fer hafa þau mörg hver burði til að standa þetta af sér akkúrat núna en hvort það verður áfram eftir sex mánuði eða ár veit ég ekki. Ég hefði væntanlega ekki lagt til fyrir sex mánuðum að við settum marga milljarða í að greiða styrki til atvinnulífsins en samt samþykkti ég það hér fyrr í dag. Þessi tími sem við höfum upplifað á allra síðustu vikum og á síðustu mánuðum er auðvitað hreint út sagt ótrúlegur.