151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Áður en ég ber upp spurningu mína vil ég leiðrétta mistök sem ég gerði í ræðu minni. Þetta mál á að fara til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, augljóslega. Þarna varð mér á í messunni en hef nú leiðrétt þessi mistök. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún þekkir auðvitað vel rekstur sveitarfélaga. Ég vil spyrja hana hvort hún haldi að það sé mögulegt fyrir sveitarfélag, 20.000–30.000 manna sveitarfélag, sem búið hefur við 18–25% atvinnuleysi frá því í mars, að halda uppi þjónustu við íbúa þegar kallað er eftir mikilli félagslegri þjónustu og barnavernd og öllu því sem fylgir þegar atvinnuleysi er svona mikið. Það er líka krafa um að klára skóla og vegi og göngustíga sem byrjað er á og einmitt halda uppi atvinnustiginu. Heldur hv. þingmaður að slíkt sveitarfélag geti haldið uppi þjónustu og atvinnustigi án þess að ríkið komi til aðstoðar við þessar aðstæður?