151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gleðjast yfir því að þetta mál eigi að koma til hv. efnahags- og viðskiptanefndar því að þar getum við haldið áfram að ræða það, við sem höfum mikinn áhuga á því og sitjum saman í þeirri ágætu nefnd. En að spurningunni: Hér er augljóslega verið að tala um Reykjanesbæ, ég geri ráð fyrir því. Það sveitarfélag hefur í langan tíma glímt við veruleg fjárhagsvandræði. Það er ekki til komið bara núna, því miður. Ég get alveg tekið undir að það er örugglega bara ógjörningur að snúa þessum rekstri við með þessar gefnu forsendur. Eina meðalið sem ég sé í því er að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu, sjá til þess að atvinnulífið taki við sér. Það er auðvitað hægt að plástra eitthvað og ég held að ríkið sé að því, sé að koma inn með aðstoð í Reykjanesbæ vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru þar. En eina meðalið til lengri tíma litið er auðvitað að fjölga atvinnutækifærum því að það er ekkert samfélag sem lifir af með atvinnuleysi upp á þessa prósentu, ekkert.

Jafnvel þó að við værum ekki að tala um fjárhagslega kosti þar, þá er bara hryllilegt að horfa upp á félagslega þáttinn sem fylgir því að fólk glími í svona stórum mæli við atvinnuleysi, og í svona langan tíma. Það hlýtur að vera það sem við þurfum alltaf að horfa á og meðalið hlýtur því að liggja í því að fjölga atvinnutækifærum með ráðum og dáð. Þá ætla ég ekki að efast um að mikið þrek og kjarkur búi í Suðurnesjafólki, að koma með nýjar hugmyndir og nýjar lausnir að atvinnutækifærum þarna. Ég sé ekki betur, án þess að ég þekki það svæði ofboðslega mikið, en að þar liggi mikil tækifæri, hvort sem er á sviði ferðaþjónustunnar, hafandi verið með þennan alþjóðaflugvöll, en líka hvað varðar stóriðju, þekkingu og hitt og þetta. Tækifærin eru þarna með höfn og flugvöll og öllum innviðunum sem hægt er að bjóða upp á á þessu svæði.