151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

árangurstenging kolefnisgjalds.

52. mál
[17:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að koma aftur með þetta skemmtilega mál. Ég vil kannski byrja á endanum í greinargerðinni, um uppruna málsins, sem er samtalið við almenning á LÝSU. Þetta var mjög skemmtileg leið til að fá hugmynd og vinna hana áfram og gott að við getum síðan rætt hana hér í þingsal.

Það eru nokkur atriði sem mig langar aðeins að spyrja þingmanninn út í. Í fyrsta lagi þessi hugmynd um að í rauninni eyrnamerkja kolefnisgjaldið þannig að það fari úr mengandi iðju og yfir í eitthvað grænt, það renni aftur til samfélagsins til að hjálpa til við grænu umskiptin sem þurfa að eiga sér stað með réttlátari hætti. Af því að hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd þá þekkir hann kannski betur en sá sem hér stendur tregðu innan kerfis við að eyrnamerkja tekjustofna, hvort hann gæti aðeins farið yfir það með mér. En ég held að það sé einboðið að svona eigi að gera þetta.

Það er kannski ekki efnisleg umfjöllun um kolefnisgjaldið sjálft í þessu máli, heldur bara að það verði að einhverjum svona sjálfvirkum sveiflujafnara, getum við kallað það. En hvaða núllpunkt á að miða við? Eins og það er í dag þá nefnir Landvernd t.d. í tengslum við fjárlagafrumvarpið að það þurfi að tvöfalda það eða þrefalda það og er þá ekki að vísa í endilega grænustu sérfræðingana, það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er viðmiðið þar. Ef við værum bara að miða við framreikning á verðlagsþróun frá því að (Forseti hringir.) lög um umhverfis- og auðlindaskatt voru sett, þá þyrfti væntanlega að hækka það töluvert líka. (Forseti hringir.) Er ekki staðreyndin líka sú að í dag er gjaldið of lágt?