151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

árangurstenging kolefnisgjalds.

52. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum í fjárlaganefnd beðið um ákveðna kostnaðargreiningu á þeim gjöldum sem við erum að taka vegna losunar, kolefnisgjaldinu og fleiri atriðum ef það á við og þau útgjöld sem er verið að fara í til að standast þær skuldbindingar sem við erum að reyna að uppfylla. Eins og hv. þingmaður orðar það þá er tregða við að svara slíku en sjáum til hvað kemur út úr þessari fyrirspurn. Markmiðið er að reyna að hafa eitthvert jafnvægi þarna. Við viljum ekki endilega að eyrnamerkingin sé núll, hún á að vera dálítið sveigjanleg, stundum aðeins meira og stundum aðeins minna og þegar allt kemur til alls yfir næstu tíu ár eða eitthvað svoleiðis þá ættum við að vera tiltölulega nálægt núlli, alla vega innan ákveðinna skekkjumarka. Það er búið að biðja um kostnaðargreiningu á þessu til að sjá stöðuna sem fer þá yfir í þennan núllpunkt sem á að miða við. Við ættum þá að sjá nokkurn veginn hvort gjöldin nái yfir þann kostnað sem leggst til á móti. Þess vegna er tekið fram í þingsályktunartillögunni að ef markmiðin eru ekki að nást þá eigi gjaldið hækka í veldisvexti, t.d. tvöfaldast. Ef við náum ekki markmiðinu er augljóst að gjaldið er of lágt og á að hækka verulega, hækka nægilega til að við verðum fljót að ná þeim árangri sem þarf, við greiðum fyrir þá mengun sem verður. Að sama skapi, ef árangurinn er þeim mun betri þá lækkum við gjaldið á móti, en hægar. Það er ekki talað um veldisvöxt í lækkuninni. Það ætti að koma í greiningunum, vera rétt greint í árstölunum.