151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

árangurstenging kolefnisgjalds.

52. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum með þessa stífu ramma sem eru gegnumgangandi í öllu kerfinu hérna á Íslandi. Við fáum ársreikninga seint og mánaðar- og fjórðungsuppgjör hjá ríkinu koma allt of seint meðan þau fást miklu hraðar annars staðar af því að það er hægt. En það er ekki gert hérna. Þetta ferli fer alveg upp í tvö ár hvað þessar loftslagstölur varðar, sem er vandamál númer eitt. Það þarf að leysa það fyrst til þess að geta gert þetta. Það þarf að vera sveigjanlegri og meiri upplýsingagjöf til að geta tekið ákvarðanir sem þessi tillaga til þingsályktunar vill byggja á.

Hvert markmiðið er að lokum þá er það tiltekið í tillögunni, markmið við að ná kolefnishlutlausu Íslandi fyrir 2040. Þannig að Parísarsamningurinn er ákveðinn grunnur, hann gildir lengur líka en við erum með þessa aukadagsetningu, kolefnishlutleysi 2040. Þegar við verðum komin þangað þá erum við alla vega ekki að menga og þá er kostnaðurinn við það farinn. Þó að það sé væntanlega enn þá einhver mengun í gangi þá vegum við upp á móti henni með einhverjum öðrum hætti, t.d. með trjám eða bíódísil eða ýmsum öðrum möguleikum. Það verður enn þá mengun, það verður enn þá kolefnisgjald þangað til að við verðum búin að útrýma því algerlega að nota slíka orkugjafa eða slík framleiðsluferli. Það yrði þá að vera markmið eftir 2040. Byrjum á kolefnishlutleysi, síðan kemur næsti hausverkur.