151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

skaðabótalög.

95. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum (launaþróun). Auk mín eru flutningsmenn Inga Sæland og Helgi Hrafn Gunnarsson. Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr.

Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 1. málslið 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: launavísitölu.

2. gr.

29. gr. laganna orðast svo: Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Efni þessa frumvarps er að finna í frumvarpi sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (430. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það frumvarp fjallaði einnig um gjafsókn í skaðabótamálum. Betur þykir fara á því að leggja málin fram í aðskildum frumvörpum. Því er í þessu frumvarpi aðeins fjallað um grundvöll reglulegrar uppfærslu fjárhæða skaðabótalaga. Efnisatriði frumvarpsins eru þau sömu og í fyrrnefndu frumvarpi sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi en gerðar eru smávægilegar breytingar formlegs eðlis og talnaefni uppfært.

Bótafjárhæðir skaðabótalaga breytast í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu en sú vísitala er lítið notuð við útreikning á verðlagi. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í verðlagsmælingum verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum í hlutfalli við breytingar á þeim mælikvörðum sem almennt eru notaðir við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Tilgangur skaðabóta er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og miða skaðabótalögin við árslaun í því sambandi, samanber 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þess ber að geta að í apríl 1995 var hætt að nota lánskjaravísitölu til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar og þess í stað notast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stendur nú í 9.290 stigum. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 183% frá gildistöku þeirra og núna er lágmarksviðmið árslauna fyrir 66 ára og yngri 3.396.709 kr. og 1.132.236 kr. fyrir 74 ára og eldri, samanber 3. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir eru talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita þeim sem verða fyrir líkamstjóni en hafa ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar.

Meðaltal heildartekna árið 1993 var 1.236.000 kr. en var 6.871.000 kr. árið 2019. Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar nú og skaðabótalögin tryggðu þeim við gildistöku. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en var 736,1 stig í ágúst 2020 og hefur því hækkað um 560%. Ef fjárhæðir laganna eru miðaðar við núverandi launavísitölu hækkar lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir 66 ára og yngri úr 3.396.709 kr. í 6.353.694 kr. Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr 1.132.927 kr. í 2.117.898 kr. Um er að ræða 87% hækkun frá þeim lágmarksviðmiðum sem fram koma í töflu í 3. mgr. 7. gr. laganna. Með breytingu þessari yrðu ákvæði skaðabótalaganna til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku þeirra.

Þess vegna er ákveðin spurning í þessu samhengi. Dómsmálaráðherra lýsti því eiginlega yfir í andsvörum hér í þinginu að til stæði að breyta þessum tekjuviðmiðum vegna þess að tekjuviðmiðin eins og þau eru núna í skaðabótalögum eru kolröng og það er alveg með ólíkindum að þarna muni allt að því 100%, eða 87%, á tekjum sem ættu að vera eða fólk á að miða við ef það lendir í slysum í dag. Þetta þýðir á mannamáli að verið er að gjaldfella vinnu hóps fólks sem gæti lent í slysum og borga því nærri helmingi lægra en það ætti að fá.

Ofan á þetta bætist að það er ekki auðhlaupið fyrir einstaklinga sem lenda í slysum að berjast við lögfræðingaher tryggingafélaganna og þeirra góðu fjárhagslegu stöðu. Tryggingafélögin nota þá aðferð þegar viðkomandi lendir t.d. í bílslysi að tjón er metið og ákveðin upphæð er greidd inn í svokallaðan bótasjóð sem er tryggingarskuld. Þessi upphæð verður síðan inni í þessum bótasjóði þangað til tjónið hefur verið greitt upp. Því miður verður í mörgum tilfellum svo til öll upphæðin alltaf þarna inni. Því miður er staðreyndin sú að fólk fær ekki þær bætur sem það á rétt á þegar það lendir í slysum. Alls konar aðferðum er beitt til að sjá til þess að fólk nái ekki fram rétti sínum gagnvart tryggingafélögunum, t.d. gjafsóknum. Fólk hefur ekki efni á að fara í mál við tryggingafélögin og því lengur sem málið dregst, því erfiðara verður fyrir viðkomandi að berjast fyrir því að fá fullar bætur og oft samþykkja einstaklingar í nauðvörn tilboð tryggingafélags sem er langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist.

Það að upphæðirnar skuli vera orðnar nærri helmingi lægri en þær eiga að vera sýnir líka að það er eitthvað mikið að þessu kerfi og spurningin er bara: Eru skaðabótalögin lögleg eins og þau eru í dag? Ég set spurningarmerki við það vegna þess að tilgangur skaðabótalaga er að bæta, eins og kemur fram, það fjártjón sem fólk verður fyrir vegna slyss þannig að það standi ekki verr á eftir. Staðan á ekki að vera betri en fólk á alls ekki að standa verr. En eins og þetta er í dag stendur fólk helmingi verr á eftir miðað við þessar tölur, þannig að þetta er spurning um hvernig í ósköpunum þetta getur staðið svona og hvers vegna enginn hefur gert neitt í þessum málum. Við verðum að átta okkur á því að við erum að miða við 1993. Það er löngu tímabært að taka þessi skaðabótalög öll til endurskoðunar. Einhverra hluta vegna kemur dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra sem á að sjá um það, það er í verkahring ráðherra að sjá um það að þessi lög séu rétt, og gerir ekki neitt. Hagsmuni hverra er þá viðkomandi dómsmálaráðherra að verja? Alveg örugglega ekki fórnarlambanna heldur að einblína á að verja tryggingafélögin.

Og hvað þýðir það á mannamáli þegar tryggingafélögin dæla peningum inn í bótasjóði og þurfa ekki að borga út nema brotabrot af því sem þangað fer inn? Það þýðir að þar safnast fyrir gífurlegir fjármunir. Þá fjármuni geta tryggingafélögin nýtt sér til góða, í ákveðnar fjárfestingar og vexti. Þessir bótasjóðir eru aldrei gerðir upp á Íslandi. Þeir bólgna bara út og við sáum meira að segja í hruninu á sínum tíma að bótasjóður fór á flakk um heiminn, hann fór til Cayman-eyja eða Tortóla og endaði sem lúxusíbúð í Kína og kom svo til baka, held ég, og endaði sem veð í botninum á sundlauginni á Álftanesi, ef ég man rétt hringferð þess furðulega máls.

Ég spyr mig: Hvers vegna eru þessi lög þannig að við gerum ekki eins og siðmenntaðar þjóðir og gerum þessa bótasjóði upp? Sjóðirnir eru til að bæta tjón fólks, ekki til að leyfa tryggingafélögunum að leika sér og gambla með þessa peninga á markaði en einhverra hluta vegna kemur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra, og gerir ekkert í málinu. Þetta er því miður mjög sorglegt og það segir okkur líka að það er eins gott að fólk átti sig á því á móti að ef það lendir í slysi þá á það rétt á að fá það bætt. En fær fólk það bætt? Það er spurningin. Ég segi í fyrsta lagi: Eins og staðan er í dag er það mjög ólíklegt. Í öðru lagi mun það taka langan tíma. Í þriðja lagi eru líkurnar allar á því að viðkomandi endi á örorku. Ef þessar fjárhæðir skiluðu sér eins og þær eiga að gera til þeirra sem eiga rétt á þeim þá er ég líka viss um að stór hópur þess fólks sem lendir á örorku gæti nýtt þá fjármuni til að breyta um vinnuvettvang, fara í nám, gera eitthvað annað, það þarf þá ekki að hafa fjárhagsáhyggjur og er þar af leiðandi betur í stakk búið til að taka á þeim áföllum sem fólk verður fyrir þegar það slasast, ég tala nú ekki um þegar fólk slasast alvarlega og lendir í áföllum sem lenda illa bæði á einstaklingnum og fjölskyldu hans.

Þess vegna segi ég að okkur ber skylda til þess á Alþingi að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að tekið verði á þessu máli. Ég vona heitt og innilega að þetta mál fái framgang og ég reikna með að það fari til allsherjar- og menntamálanefndar og ég vona heitt og innilega að það verði til þess að tekið verði á þessum málum. Ég get ekki ímyndað mér annað, miðað við þau orð sem ég hef heyrt, en að hæstv. dómsmálaráðherra muni styðja þetta vegna þess að hún talaði sjálf um að kominn væri tími á að taka þessi lög og endurskoða þau og koma þeim í lag og sérstaklega þessum fjárhæðum vegna þess að það á að vera og getur ekki annað en verið sjálfsagt að þessar fjárhæðir fylgi launavísitölu vegna þess að það segir sig sjálft að þær eiga að endurspegla fjárhagsleg tjón sem viðkomandi verður fyrir og þar af leiðandi er launavísitala eini mælikvarðinn sem hægt er að nota á þetta vegna þess að hún er sá mælikvarði sem segir okkur hvaða laun viðkomandi var með en ekki laun eins og þau eru í dag, sem eru helmingi lægri upphæðir. Þá eru lögin í dag hálfgerð eignaupptaka á launum þess sem slasast. Það getur aldrei hafa verið tilgangur þessara laga.

Frá öllum sjónarhornum séð, ef þetta mál fær ekki framgöngu, þá er löggjafinn að segja, og við á Alþingi, að þetta sé ásættanlegt, að það sé ásættanlegt að þeir sem lenda í slysum fái helmingi minna en þeir ættu að fá og það sé bara eðlilegt. Rökfræðilega gengur það ekki upp þannig að í framhaldi af þessu vona ég svo heitt og innilega að þetta mál fái sinn framgang og verði samþykkt hér sem lög þannig að við séum þá alla vega búin að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að hlutirnir séu réttir og að þeir sem lenda í slysum og verða fyrir því óhappi að þurfa að fara og leita réttar síns hjá tryggingafélögum og fá sitt tjón bætt, fái, eins og lögin segja, tjón sitt bætt að fullu og þar af leiðandi sé það alveg á hreinu að lögin gefi það. En því miður, meðan lögin eru eins og þau eru, fær fólk ekki tjón sitt bætt. Það fær það ekki bætt nema um rétt rúmlega helming og það fær jafnvel ekki þann helming að fullu bættan vegna þess að það er mjög erfitt að sækja þann rétt.

Ég aðskildi núna gjafsóknarhlutfall frá þessu máli vegna þess að einn anginn á þessum málum er að það kostar mikla peninga að fara í stríð við tryggingafélögin og reyna að fá sitt, þar þarf dómkvadda matsmenn, jafnvel yfirmat. Til þess að geta staðið í því þarf gjafsókn en gjafsóknarlögin eru mjög ströng og því miður er ekki auðvelt að fara þá leið og ég spyr mig: Hvers vegna ekki? Hvers vegna í ósköpunum, sem er önnur spurning, er ekki inni í lögunum sá réttur sem margir hafa nú þegar í tryggingalögum, sínum eigin tryggingum, rétturinn til þess að sækja mál, að fólk fái borgað og sé tryggt fyrir því að geta sótt mál? Það á að vera eðlilegt. Annað er óeðlilegt. Það á að vera tryggt að þeir sem lenda í tjóni geti sótt mál sitt ef þeir þurfa á því að halda og fái tjón sitt bætt. Til þess eru lögin.