151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála honum í því að við stöndum svolítið frammi fyrir því að málum fólks er blandað saman af því að kerfið er heldur ekki einfalt að skilja. Það kom ágætlega fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir ekki svo mörgum árum síðan þar sem var lagt til að samræma og einfalda eitthvað af þessum málum og var svo sannarlega farið í það þó að betur megi ef duga skal, eins og sagt er. Eins og ég kom inn á áðan kemur þarna inn í og er kannski partur af því það sem dómsmálaráðherra var einmitt að skrifa undir, varðandi atvinnuleyfin til handa ákveðnum hópi. Ég ætla ekki að segja að það sé loku fyrir það skotið að ráðherra sé með eitthvað slíkt á borðum sínum sem getur komið inn í þessi mál. Um það ætla ég þó ekki að fullyrða en ég veit að hún hefur mikinn áhuga á því að skoða þennan vinkil á málinu sem og félags- og barnamálaráðherra og forsætisráðherra. Þar sem ekki liggur fyrir hvort það náist að setja slík mál fram núna, en eins og ég segi þá ætla ég ekki að fullyrða um það, þá ákváðum við þingmenn Vinstri grænna að stíga þetta skref og leggja þetta til. Ég átti samtöl við fulltrúa þessara aðila sem hér er lagt til að komi í þennan hóp til að velta því upp hvort þetta sé ekki eitthvað sem fólk telji tímabært að gera og sé tilbúið til að taka að sér og ég fékk mjög jákvæð viðbrögð þeirra sem ég talaði við. Mér fannst því ekki ástæða til að bíða eftir því að ráðherra gerði eitthvað. En ég tek undir með þingmanninum, ég vona sannarlega að ráðherrar geri það.