151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ekki er loku fyrir það skotið, eins og þingmaðurinn segir, að ráðherrar séu með eitthvað svona í pípunum, hefði ég haldið, í ljósi tímans, í ljósi aðstæðna, að hreinlegast og einfaldast væri að slá í klárinn og láta ráðherrana skila því af sér þannig að við næðum að klára eitthvað á þessum vetri sem breytir kerfinu. Þegar þingmaðurinn segir að það liggi ekki fyrir hvort það náist, svona vinna sem geti mögulega verið í gangi í ráðuneytum, hvort er það vegna tímaskorts eða vegna mögulegrar andstöðu í öðrum stjórnarflokkum?

Ég hegg líka eftir því að tímaramminn sem gefinn er þessum starfshópi teygir sig inn á næsta kjörtímabil. Er það mögulega til að ýfa ekki fjaðrir innan stjórnarliðsins hjá þeim sem vilja síður opna landið? Við skulum bara vera alveg heiðarleg með það. Það eru ekki allir flokkar í þessari ríkisstjórn sem styðja opnari landamæri.