151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi veit hv. þingmaður það eins og ég að við látum ráðherra ekki skila einhverju til þingsins. Þingmenn beita ráðherra ákveðnum þrýstingi, það gerum við sannarlega og höfum gert. Ég tel að þetta samstarf sé einmitt eitt af því sem er kannski að leiða af sér einhverja breytni í þessum efnum. Já, það er andstaða í þingflokkunum, það hefur legið fyrir. Það er líka andstaða í öðrum flokkum hér á Alþingi um bæði málefni útlendinga og annarra þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Varðandi það að tímaramminn teygi sig inn á næsta kjörtímabil þá hefur það ekkert með samsetningu þessarar ríkisstjórnar að gera. Eftir samtöl mín við þá aðila sem hér er ætlað að vinna að þessu máli kom í ljós að þeir telja að það þurfi tíma til að vinna þessa vinnu í ljósi þess að við vitum ekki hvernig og ekki heldur á hvaða tímapunkti hún kemst í gegn þingið. Gleymum því ekki, það þekkjum við, hvort heldur það eru stjórnarmál eða málefni þingmanna, að það tekur sinn tíma og þarf sinn tíma í þinginu til umfjöllunar. Það er því alls ekki ofáætlaður tími, ef málið myndi afgreiðast fyrir jól, að þessi nefnd myndi skila einhverju af sér fyrir lok næsta þings eða um það leyti. Þess vegna tel ég bara ágætt að það sé gert. Ráðherra sem þá tekur við er þá kominn með verkefni í hendurnar sem þingið hefur falið honum og er þá væntanlega kominn með einhverjar niðurstöður sem honum er ætlað að vinna áfram með og koma til þingsins. Við þekkjum það að hægt er að ýta á eftir því og það eru mörg mál sem hafa náð fram að ganga þó að þau hafi farið á milli ríkisstjórna.