151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:33]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er umdeilt. Það hefur alltaf verið umdeilt í samfélaginu og umdeilt hér á þingi en ég held að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafi gert grein fyrir því af hverju það er lagt fram hér og nú. Ég tel að við munum ekki nógu oft að við erum öll innflytjendur. Við þekkjum söguna. Þjóðernin sem hér námu land voru allnokkur ef miðað er við nútímann, eins og þjóðir hafa skipast nú, og þetta hefur í gegnum aldanna rás skilað okkur verkkunnáttu — og nú er ég að tala um miðaldir, fram undir 19. öldina — skilað okkur nýrri menningarstarfsemi og auðvitað voru Danir síðan fyrirferðarmiklir í þessu. Þeir kenndu okkur iðnir og verkfræði, landmælingar, mjólkurvinnslu, landbúnað. Einu sinni voru allir bakarar á Íslandi Danir og hér var þekktur maður sem var bæjarverkfræðingur og hét Knud Zimsen, eins konar faðir Reykjavíkur að mörgu leyti. Þetta færði okkur Korpúlfsstaðabú og ég get nefnt fleiri slík lykilatriði. Þetta voru Danir.

Síðan gerist það, þegar líður aðeins á 20. öldina, að hingað inn fara að koma Mið-Evrópubúar. Tónlistarlíf á Íslandi er í raun og veru fóstrað af slíku fólki; Tékkum og Austurríkismönnum, Þjóðverjum, Spánverjum, Bandaríkjamönnum og fleiri þjóðum. Ylrækt kom til Íslands í gegnum fjölskyldu sem var annars vegar frá Eystrasalti og hins vegar frá Danmörku, bara svo að ég nefni eitthvað. Ég gæti líka nefnt það sem mér stendur nærri sem er upphaf leirlistar á Íslandi. Ég er hálfur útlendingur og væri ekki hér ef hingað hefði ekki komið fólk í atvinnuleit.

Þetta er hægt að skoða í samhengi við það sem síðar hefur gerst, þ.e. tilkomu Evrópusambandsins og síðan náttúrlega tengsla okkar í gegnum EES. Þá koma nýjar reglur og þær eru þeirrar gerðar að þær eru rúmar fyrir ákveðinn stóran hóp, ríkin sem eru í Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu, en býsna þröngar fyrir aðra. Engu að síður hafa tugþúsundir komið til landsins og þau hafa gert nákvæmlega þetta, auðgað hér verkkunnáttu, auðgað hér menningu og halda áfram að gera það. Það hefur ennfremur gerst, í aðeins þrengri tímaramma, ég myndi segja undanfarinn aldarfjórðung, að hingað hafa komið þúsundir annarra þjóða fólks. Það eru mikið til sérfræðingar, í líftækni, í stafrænni þróun, lyfjaframleiðslu, listamenn. Allir vita að hér færi ekki fram sauðfjárslátrun, jafnvel ekki rúningur, öðruvísi en að hingað kæmi fólk.

Það er því kominn tími til, herra forseti, að rýmka reglurnar. Þá er ég ekki að vísa til þess máls sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að nefna, þ.e. varðandi flóttamenn og hælisleitendur, heldur einfaldlega til þess að bjartari framtíð okkar er fólgin í því að hingað komi fólk með nýja verkkunnáttu, með fjölmenningu o.s.frv. Það þarf að auðga vinnuaflið. Hugsum okkur alla þá útlendinga sem hér hafa dvalið, við skulum segja í lengri tíma, hafa dáið hér, verið grafnir, 20. öldina alla og það sem af er 21. öldinni. Þetta eru áreiðanlega yfir 100.000 manns. Íslendingar voru ekki nema rúmlega 100.000 upp úr aldamótunum 1900. Hvernig sem við horfum á það eru þessi áhrif gríðarlega mikil og ef við metum þau gætum við spurt okkur hvað hafi verið til vansa. Það er ansi fátt. Hvað hefur verið til mikilla framfara? Það er ansi margt. Mikill meiri hluti af því sem stendur eftir þetta fólk eru framfarir. Ef settur er skýr rammi af okkar hálfu utan um þessa opnun, sem varðar menntun, réttindi, skyldur og samstarf við verkalýðshreyfinguna, eins og hér er lagt upp með, er ég sannfærður um að hér sé gott mál á ferðinni.

Nú kann svo að fara að það nái ekki fullri afgreiðslu á þessu þingi. Þá eru aðrir til að taka upp hanskann og halda þessu áfram þegar þar að kemur eða þá að ríkisstjórninni auðnist að leggja fram frumvarp. En eins og ég sagði áðan — og það er alveg rétt og engin launung og það hafa aðrir hv. þingmenn rætt hér — er þetta auðvitað umdeilt og hefur verið umdeilt árum saman, meira að segja í verkalýðshreyfingunni. Þetta er því langhlaup en ekki eitthvað sem við leysum einn, tveir og sex.

Ég ætla að fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Mér er heiður að því að vera meðflutningsmaður á því. Ég hlakka til að sjá hvort og hvenær það nær til nefndar, hvaða útreið það fær þar og hvort við náum að afgreiða það á þessu þingi.