151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna mjög framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og styð hana heils hugar. Ég hefði reyndar stutt frumvarp frá hæstv. ráðherra þessa efnis, hefði gjarnan viljað sjá það hér fyrr, en þetta er skref í rétta átt, klárlega. Ég vil bara taka undir það sem sagt hefur verið hér í þessum efnum. Það er mikilvægt fyrir okkur að auðvelda fólki að koma hingað til lands til að taka þátt í samfélaginu okkar og vinna hér með okkur. Það gerir samfélag okkar fjölbreyttara. Það er mikilvægt fyrir okkur að auka þann fjölbreytileika og ég tala nú ekki um, ef við hugsum bara um beinhörð efnahagsmál, að við þurfum einfaldlega fleiri vinnandi hendur eftir því sem þjóðin eldist.

Það er sorglegt að það neyðarkerfi sem alþjóðasamfélagið er búið að koma sér upp varðandi flóttamenn sé núorðið í auknum mæli nýtt af fólki sem er ekki á flótta samkvæmt skilgreiningu þess kerfis heldur er hreinlega að leita sér að betra lífi. Ekki ætla ég að hallmæla þeim sem fara út í þá vegferð að leita betra lífs og betra viðurværis fyrir börn sín og betri framtíðar fyrir þau. Þau eiga hrós skilið. Það er alltaf mikið átak að rífa sig upp með rótum frá heimalandi sínu og fara eitthvert annað. Við Íslendingar ættum að þekkja það í gegnum tíðina, hafandi oft flutt erlendis, hvort sem talað er um vesturfarana eða í síðustu kreppu þegar fólk fór gjarnan til Skandinavíu, Noregs eða eitthvað þess háttar.

Ég myndi svo gjarnan vilja bjóða þá velkomna sem hingað vilja koma og taka þátt í okkar samfélagi. Þess vegna er miður að kerfið, þegar kemur að atvinnuleyfunum, sé eins þröngt og raun ber vitni og líka það að endurnýjun atvinnuleyfa er erfið. Við sjáum eitt sorglegt mál í fjölmiðlum núna, án þess að maður vilji svo sem tengja svona mál einstökum málum. Ég kannast líka við það, í hringferð okkar Sjálfstæðismanna, að tala við atvinnurekanda úti á landi, sem var svo ofboðslega sorgmæddur yfir því að hafa misst vinnuafl, unga konu sem fékk ekki framlengingu atvinnuleyfis vegna þess að atvinnuleysi á viðkomandi svæði hafði aukist. Þetta var ekki starf sem kallaði á sérfræðiþekkingu en atvinnurekandinn átti í erfiðleikum með að fylla í starfið. En viðkomandi einstaklingur hafði ekki fengið framlengingu á atvinnuleyfi. Það er miður. Ég held þar af leiðandi að við þurfum að skoða þessi lög og sjá til þess að þau þjóni atvinnulífinu en fyrst og fremst að þau séu mannúðleg og meðhöndli þá sem hingað koma af virðingu.

Ég fagna þessu framtaki og styð þessa þingsályktunartillögu og vona að af breytingum á lögunum geti orðið hið allra fyrsta.