151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:43]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna einnig framlagningu þessa frumvarps og hef hlustað af áhuga á umræðuna sem hér hefur fram farið í dag. Ég get stutt þetta mál, það verður vonandi að frumvarpi einhvern tímann. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi það nefnilega í sinni ræðu áðan að kerfið okkar er í raun þannig í dag að við höfum ákveðnar leiðir inn í landið sem eru kannski helst ætlaðar fólki sem er á flótta. Það væri alveg til þess vinnandi að við gætum létt á því kerfi og flokkað þetta betur þannig að þeir sem eru ekki á flótta, í lífshættu eða slíku, hefðu aðrar leiðir. Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Hefur hún einhverja hugmynd um hvað mætti ætla að hlutfallið væri síðastliðin tvö, þrjú ár, þ.e. þeirra sem óska hælis á grundvelli erfiðra aðstæðna í heimalandinu og þeirra sem gætu fallið út úr því kerfi og sótt bara um dvalarleyfi og fengið vinnu þannig að sú reynsla og þekking sem þessir einstaklingar hafa frá heimalandi sínu væri metin? Hefur þingmaðurinn einhverja hugmynd um það? Er þetta helmingur eða minna eða meira?