151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en verð því miður að svekkja hana með því að ég hef ekki svarið. Ég hef ekki lagst yfir þetta en við höfum heyrt orðið „tilhæfulausar“ notað um umsóknir í þessu sambandi. Fólk hafi komið hingað sem hælisleitendur en það sé tilhæfulaus umsókn. Þetta er svolítið ankannalegt orðalag því að ég er alveg viss um að sá sem sækir um hafi ástæðu til að sækja um, en hann er kannski á vitlausum stað. Það kom einmitt ágætlega fram hjá hv. 1. flutningsm. þessarar tillögu, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, að kerfið er einhvern veginn lokað með þeim hætti. Ég efast ekki um að ástæðan geti líka verið tungumálaleysi og þekkingarleysi á því hvar maður á að fara inn í kerfið okkar. Ég held að það eigi því miður við um of margar umsóknir sem koma inn í þetta ofboðslega mikilvæga kerfi sem hælisleitendakerfið okkar er og er fyrir fólk í ofboðslega mikilli neyð. Við sjáum það bara á tölunum hversu mikið umsóknum hefur fjölgað þar. Það væri örugglega æskilegt að geta létt á því kerfi og ég held að svarið við því liggi svolítið í þeirri leið sem talað er fyrir í þessari tillögu, að fleiri geti komið hingað til lands og óskað eftir því hreinlega að búa og starfa hér, auðvitað að því gefnu að viðkomandi bjóðist einhver vinna við hæfi. En nei, ég hef ekki lagst yfir þessar tölur.