151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég get tekið heils hugar undir það. Ég held að fjölbreytni og fjöldi fólks frá mismunandi menningarheimum skipti okkur máli og í því geti falist bæði tækifæri og mikill kostur fyrir okkur Íslendinga. Mig langar að nefna í þessu samhengi að nýverið skrifuðu þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar undir reglugerðir sem lutu að því að auðvelda fólki utan EES að koma á tímum sem þessum til Íslands og stunda sína vinnu í fjarvinnu. Á þessum furðulegu tímum sem við upplifum er stór hluti heimsbyggðarinnar að vinna heiman frá, þeir sem hafa tækifæri til þess. Maður áttar sig á því að það er ákveðinn forréttindahópur sem er í þeirri stöðu að geta sinnt sinni vinnu heiman frá sér í gegnum tölvu og nettengingar. En þeir sem geta það geta náttúrlega verið staddir hvar sem er. Þetta gefur svo mikil tækifæri og þarna er tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ég vona að þessi opnun geri það að verkum að hingað flytjist fólk tímabundið til að sinna sinni vinnu í gegnum fjarvinnu og sjái tækifæri í því, því að þrátt fyrir okkar takmarkanir hafa þær hingað til — 7, 9, 13, vonum að það verði áfram — verið minni en víða annars staðar erlendis. Ég held nefnilega að svoleiðis tækifæri opni svo mikið, að fólk komi og vinni hér kannski í sex mánuði eða eitthvað. Það opnar augu þessara aðila fyrir Íslandi og opnar líka augu Íslendinga fyrir tækifærunum sem felast í því. Ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægt skref og það skiptir máli.

Ef ég á að tala út frá eigin hjarta þá vildi ég helst ekki sjá nein landamæri og við gætum bara flutt hvert sem við vildum í heiminum og gert hvað sem við vildum, en við búum ekki í fullkomnum heimi þannig að staðan er ekki svoleiðis. En þangað til að heimurinn verður alveg fullkominn finnst mér alla vega full ástæða til að reyna að hafa hann eins opinn og hægt er og tryggja þannig lífsgæði og mannréttindi sem flestra.