151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

brottvísun fjölskyldu frá Senegal.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er skemmtileg tilbreyting að heyra Sjálfstæðismenn tala síðustu daga um mikilvægi þess að Ísland sé frjálst og opið og tækifærin sem felast í að bjóða erlent fólk velkomið hingað til að efla íslenskt samfélag og atvinnulíf, það er frábært. Það er mikilvægt að laða til okkar fólk til að láta þjóðina halda áfram að vaxa og dafna þannig að hér verði fjölbreytt og samkeppnishæft samfélag. Miðað við yfirlýsingarnar hélt ég skamma stund að verið væri að gera einhverjar kerfisbreytingar í útlendingamálum. Kerfið er þunglamalegt og óbilgjarnt í garð fólks utan EES sem flyst hingað og óvinveitt umsækjendum um alþjóðlega vernd. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að reyna að laga það, þvert á móti, og því vakti þetta ákveðna von. En það kom á daginn að fagnaðarlætin snerust um að nú á að leyfa efnuðum Íslendingum utan EES að koma hingað og vinna fjarvinnu fyrir erlend fyrirtæki í allt að sex mánuði án þess að greiða tekjuskatt á Íslandi. Ríkisstjórnin er sem sagt að opna fyrir eins konar Covid-ferðamennsku hratt og örugglega. Það er ágætishugmynd en á sama tíma eru fréttir um fjölskyldu frá Senegal sem hefur búið hér í sjö ár. Fjölskyldufaðirinn hefur stundað vinnu, borgað tekjuskatt í samræmi við það og lagt til samfélagsins. Dætur þeirra fæddust hér á landi, hafa alist hér upp alla tíð og aldrei komið til útlanda, herra forseti. Eldri stúlkan, sex ára, talar góða íslensku og er að læra að lesa með bekkjarfélögum sínum í Vogaskóla. Hér eru tvö ríkisfangslaus börn sem þekkja ekkert annað en íslenskt samfélag, en þau eru hins vegar ekki velkomin og ég spyr: Er hæstv. ráðherra jafn opinn fyrir því að greiða götu þeirra hratt og örugglega?