151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

brottvísun fjölskyldu frá Senegal.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Vandinn í umræðu um þessi mál er einmitt þegar menn gera eins og hv. þingmaður, að rugla öllu saman sem snertir þennan málaflokk og setja í eina skál og hræra mjög hratt og kippa síðan einhverju upp og segja: Er þetta í lagi? Menn verða að geta gert greinarmun í umræðu um þessi mál á milli þeirra sem eru að flýja heimkynni sín, flýja stríðsástand, sækjast eftir alþjóðlegri vernd, og geta rætt um reglurnar sem við ætlum að láta gilda um þann málaflokk og síðan útlendingalögin í víðara samhengi, þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist vegna EES-samstarfsins og hvernig við ætlum að taka á t.d. dvalarleyfum og atvinnuréttindum þeirra sem eru utan EES. Þetta er sitthvor umræðan, sitt málið hvort. Að vísa til breytinga sem við erum að gera núna til þess að gera fólki sem vill koma tímabundið, vera hérna allt að hálfu ári og vinna frá Íslandi vegna starfa sem það hefur í útlöndum og vegna launa sem koma þaðan og rugla því saman við fjölskyldu frá Senegal sem leitar hér eftir alþjóðlegri vernd er auðvitað bara einhvers konar skrum í umræðunni. Þessi mál eiga ekkert sameiginlegt.

En við skulum endilega ræða það hvernig við gætum t.d. opnað fyrir möguleika okkar Íslendinga til að njóta krafta sérfræðinga sem vilja koma hingað, prófessora sem eru utan EES og vilja kenna við háskólana, vilja vera hérna kannski árlangt eða eitthvað slíkt, eða ræðum um aðra sérfræðinga sem vilja koma hingað og vinna. Helsti þröskuldurinn í vegi fyrir því, hv. þingmaður, er forgangsréttarákvæði kjarasamninga.

Mál einstakra fjölskyldna verða síðan að fá málsmeðferð, skjóta málsmeðferð. Ég ætla bara að segja alveg eins og er: (Forseti hringir.) Ég þekki ekki öll smáatriðin í þessu máli en ég tek eftir því að börnin hafi fæðst hér og ég spyr mig: Hvers vegna í ósköpunum hefur þessi staða skapast? (Forseti hringir.) Mér finnst það óeðlilegt.