151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

brottvísun fjölskyldu frá Senegal.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Alþingi er ekki úrskurðarnefnd í málefnum útlendinga, það er bara ekki þannig. Hér gilda lög og reglur og við eigum þá að ræða um það hvort við viljum breyta lögunum, hvort við viljum breyta reglunum, hvort eitthvað sé bogið við framkvæmd laganna. Ég ætla bara að upplýsa hv. þingmann um það að ég er ekki með þetta mál til úrskurðar í mínu ráðuneyti. Þetta er málaflokkur á forræði annars ráðherra og ég þekki bara ekki málavöxtu þessa tiltekna máls. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er eitthvað bogið við það að fólk sem hefur búið svo lengi hér á Íslandi sé enn með sín mál óleyst, ég get vel tekið undir það. En ræðum þá hvers vegna það er. Á hvaða forsendum kom þetta fólk í upphafi til Íslands? Á hvaða grundvelli hóf það búsetu á Íslandi? Hver var staða þess þá? Hvernig hefur hún breyst yfir tíma o.s.frv.? Við getum alveg rætt þetta og spurt okkur hvort lögin þurfi að taka breytingum. En það er hv. þingmaður sem er að blanda þessu máli saman við öll hin tilvikin sem við erum að berjast fyrir breytingum á, t.d. til þess að við fáum öflugt fólk til að vinna að uppbyggingu þessa samfélags.