151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

kjör lífeyrisþega.

[10:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Hann telur greinilega að fólk geti lifað á landsframleiðslu og meðaltali. Það tel ég ekki. 220.000 kr. á mánuði, það lifir enginn á því, fólk tórir á því. En hvað segir hann um hina sem eiga að lifa á enn þá minna, þá sem hafa lent í búsetuskerðingum, 90% af því lægsta sem er til á Íslandi? Nei, þetta fólk hlýtur að hafa það rosalega gott. Það breytir engu hversu kerfið er gott meðan fólk sveltur, meðan það eru 10.000 börn sem lifa í fátækt. Við erum líka með kerfi þar sem núna hefur komið í ljós að það eru 10.000 börn sem hafa orðið fyrir vanrækslu eða ofbeldi. Þá er kerfið okkar að bregðast gjörsamlega. Og kerfið er að bregðast gjörsamlega þegar við lesum það aftur og aftur hvernig komið er fram við veikt og slasað fólk og eldri borgara þjóðfélagsins. Það er ömurlegt að þurfa aftur og aftur að standa frammi fyrir því. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími til að sjá til þess að börn séu ekki fátæk og það sé enginn sem þurfi að svelta á Íslandi?