151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

kjör lífeyrisþega.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu markmið okkar að byggja hér upp samfélag og samfélagsgerð sem tryggir að enginn verði út undan. Ég held hins vegar að við getum ekki handstýrt lífi hvers og eins, og að okkar hlutverk á vettvangi stjórnmálanna sé kannski fyrst og fremst að tryggja tækifærin til að njóta sín í lífinu.

Hv. þingmaður nefnir gjarnan í ræðustól tölur úr almannatryggingakerfinu, eins og 220.000 kr. Mig langar að vekja athygli á því að hlutfall þeirra í örorkukerfinu sem eru á berstrípuðum lágmarksbótum með engar aukagreiðslur og ekkert annað, liggur einhvers staðar í kringum 1% eða 2% — 1% eða 2%. Þá er sem sagt í þeirri umræðu verið að sleppa hinum 98%. Þetta kerfi hefur verið byggt þannig upp að við höfum lagt áherslu á að viðbótargreiðslur komi, t.d. vegna barna, með mjög öflugum barnalífeyri. Við erum með mjög öfluga styrki vegna þeirra sem búa einir. Við erum með alls konar ökutækjastyrki og hinar og þessar tegundir af styrkjum. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður ætti kannski að spyrja sig að því hvort við séum að ofgera þar og hefðum átt að setja meira fjármuni annars staðar, vegna þess að víða í kerfinu er hægt að finna fólk sem fær góðan stuðning. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður er eingöngu að tala um þá sem eru á berstrípuðum bótum þá held ég að hægt sé að leysa það, vegna þess að það er bara 1% eða 2% þeirra sem þar eru sem þurfa að tryggja framfærslu sína með bótum.