151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

staða innanlandsflugs.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að sú ákvörðun að fella niður gjöld á Keflavíkurflugvelli kemur í raun og veru frá Isavia. Hugmyndin var rædd við ráðuneytin eftir að þetta hafði borið á góma í stjórn og meðal stjórnenda Isavia og við höfum í sjálfu sér ekki tekið neina sjálfstæða ákvörðun um að halda áfram gjaldtöku á innanlandsflug. Við höfum hins vegar verið að gera aðra hluti í innanlandsfluginu eins og loftbrúin er til vitnis um, til að greiða fyrir ódýrari samgöngum með flugi fyrir landsmenn sem búa í ákveðinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég er svo sem alveg opinn fyrir því að skoða eftir aðstæðum þörfina fyrir breytingar á gjaldskrá Isavia tímabundið vegna Covid-ástandsins. En ég held hins vegar að ef við ætlum að ræða innanlandsflugið í einhvers konar stærra samhengi þá þurfum við að taka fleira með í reikninginn og spyrja okkur út í þessa þróun sem hefur verið undanfarin ár, hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að hún haldi áfram eða hvort loftbrúin muni kannski brúa bilið, stoppa upp í þetta gat, mögulega vinda ofan af þeirri þróun sem hefur verið.

Þetta segi ég vegna þess að maður finnur svo sterkt fyrir því þegar maður fer um landið hversu gríðarlega mikilvægar flugsamgöngurnar eru fyrir fólkið sem býr langt frá höfuðborgarsvæðinu. Það getur haft veruleg áhrif á vilja fólks til að flytja vegna atvinnu út á land og hefur líka mikil áhrif á vilja fólks sem hefur alist þar upp til þess að búa þar áfram ef (Forseti hringir.) samgöngur við höfuðborgarsvæðið eru mjög erfiðar, þær eru einn af þáttunum sem skipta verulega miklu máli. Ég er ekki undirbúinn (Forseti hringir.) fyrir nánari greiningu á þessu máli en ég er alveg tilbúinn til að skoða þetta.