151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

um fundarstjórn.

[11:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í örstuttri ræðu taka fyrir ummæli sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hafði um mig á þingfundi 5. nóvember sl. og ég hef gefið henni tækifæri á að draga til baka. Hún sagði, með leyfi forseta:

„… harma það að þessi tiltekni þingmaður sé ítrekað að afvegaleiða umræðuna og fara fram með fleipur í þessu máli. Ég get þar bent á það sem sagt var hér á opnum fundi hv. velferðarnefndar í gær þar sem umræddur þingmaður kom einmitt inn á þetta mál líka og talaði um að verið væri að flytja inn ólöglega 150.000 konur. Hv. þingmaður leyfir sér að tala með þessum hætti hjá fastanefnd þingsins. Manni blöskrar hvernig hann setur fram ósannindi. Það er ekki hægt að segja að þetta sé misskilningur í orðum hv. þingmanns.“

Virðulegur forseti. Það eina sem ég sagði um þetta mál þegar ég spurði Pál Matthíasson, framkvæmdastjóra og forstjóra Landspítalans, hvort hann gæti tekið á móti 150.000 konum í fóstureyðingum — ég sá það á RÚV að það væru 150.000 ólöglegar fóstureyðingar í Póllandi — var orðrétt: Ráðum við við slíka þjónustu?

Virðulegur forseti. Stjórnmálamenn sem ekki geta beðist afsökunar á orðum sínum (Forseti hringir.) eiga sameiginlegan uppskerudag, 8. nóvember.