Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Ég þakka þessa mikilvægu umræðu hér í dag. Undanfarið höfum við heyrt aukið ákall um aðgengi að sérgreinalæknum á landsbyggðinni og það hefur heyrst að þeir samningar sem síðast voru gerðir við lækna hafi verið höfuðborgarmiðaðir, þannig meint að aukinn hagur sé í því fyrir lækna að starfa á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hér hvort það sé rétt og þá hvernig hún hyggist ná fram breytingu þannig að læknar sjái einnig hag sinn í að sinna störfum utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég tek undir með málshefjanda að sjaldan eru tekin með í reikninginn, eða í raun aldrei, ferðalög sem ekki eru að fullu endurgreidd og ekki heldur vinnutap viðkomandi og þeirra sem fylgja þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Það kemur alltaf betur og betur í ljós að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni undanfarin ár var og er vanhugsaður. Aukinn kostnaður fellur á íbúa landsins og þess vegna kemur það ekkert sérstaklega á óvart að íbúar á landsbyggðinni sæki sér síður þjónustu.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 segir, með leyfi forseta:

„Ein leið til að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að sérfræðiþjónustu er að hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri verði skilgreint þannig að þeim beri að sjá heilbrigðisstofnunum landsins fyrir þjónustu sérgreinalækna í samvinnu og samkvæmt samningi við viðkomandi heilbrigðisstofnanir.“

Þessi stefna var samþykkt á síðasta ári eins og við munum öll, en við þetta þarf að standa.