151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þessa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma í andsvar. Þetta er mjög mikilvægt mál í sambandi við heilbrigðisþjónustu úti á landi. Það er mjög dýrt fyrir fólk á landsbyggðinni að leita þjónustu. Það liggur við að það þurfi að stærstum hluta að sækja þjónustu til borgarinnar. Í þeim hópi eru fatlaðir einstaklingar sem eiga oft erfitt með að ferðast. Því miður virðist lítið tillit tekið til þeirra og líka hversu oft þeir þurfa að sækja þjónustu til Reykjavíkur. Það er dýrt og það er eiginlega ömurlegt til þess að hugsa að sú staða hafi komið upp, og sé alltaf að koma upp, að þeir hafi ekki efni á að sækja þjónustuna til höfuðborgarsvæðisins.

Hvað er þá til ráða? Yfirleitt er eina niðurstaðan að þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Ég kynntist því í Norðurlandaráði að Grænlendingar eru í þeirri stöðu að vera með mjög víðfeðmt land þar sem erfitt er að komast til læknis. Þeir útbjuggu færanlega læknastöð sem var hægt að nýta í ákveðnum tilfellum, sérstaklega í neyðartilfellum. Við eigum að sjá til þess að læknar fari út á land, að læknar séu að lágmarki til staðar og viðunandi sjúkrahús og aðstaða sé í hverjum landsfjórðungi. Síðan þurfum við að stórefla heilsugæsluna til að taka við þeim sem á þurfa að halda og sjá til þess að sérfræðingar komi og hjálpi. Í seinni ræðu minni mun ég mun taka fyrir nánari útfærslu á því.