151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[12:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög þarft mál, heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Það er eiginlega stórmerkilegt hvernig við höfum getað rætt þessi mál, varðandi heilbrigðiskerfið, fram og til baka. Í stuttu máli höfum við búið til svo flókið kerfi í einstaka tilfellum að við erum með biðlista, t.d. biðlista fyrir börn. Og á hvaða biðlista eru þau nú? Þau eru á aukabiðlista og þegar þau komast af þeim biðlista þá komast þau á réttan biðlista. Hvað segir þetta okkur?

Og við gerum þetta ekki bara við börnin. Við gerum þetta líka við eldri borgara, við búum til biðlista. Þar áttu að bíða þar til þú getur komist á aðalbiðlista. Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt fyrirbrigði og það eru dæmi um að fólk hefur þurft að bíða á biðlista í þrjú ár eftir að komast til augnlæknis. Þetta er alveg ótrúlegt ofbeldi gagnvart veiku fólki vegna þess að þarna erum við ekki á neinn hátt að spara. Þarna erum við spara aurinn en henda krónunni. Það segir sig sjálft að það bitnar mun harðar á heilbrigðiskerfinu síðar ef fólk getur ekki, vegna kostnaðar, leitað læknis þegar það þarf á því að halda.

Við eigum að semja við lækna sem eru utan sjúkrahúsa. Við eigum að gera útboð og hafa gulrót til þess að þeir læknar sem vilja geti farið út á land og veitt þjónustu þar en ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Við gerum kröfu um það.