151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:23]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Herra forseti. Staða mannréttinda í Póllandi vekur bæði ugg og hrylling. Afnám sjálfsagðra réttinda kvenna yfir eigin líkama er gríðarlegt bakslag í kvenréttindum og um leið gríðarleg afturför mannréttinda í landi sem er í Evrópu og er aðildarríki Evrópuráðsins eins og Ísland og hefur þar með undirgengist alþjóðasamninga og sáttmála um réttindi kvenna og mannréttindi. Þessi dapurlega og í raun ömurlega þróun sem staðið hefur yfir á valdatíma stjórnarflokksins Lög og réttur, í þá átt að skerða harkalega réttindi kvenna og réttindi hinsegin fólks, hefur náð ákveðnu hámarki, eða skulum við frekar segja ákveðnum botni, með úrskurði stjórnlagadómstóls Póllands þann 22. október sl. um nær algjört bann við fóstureyðingum nema ef sannað þykir að konan eða stúlkan hafi orðið fyrir nauðgun, hvort sem er af hálfu ættingja eða ókunnugs, eða sannað þykir að líf konunnar eða stúlkunnar sé í hættu.

Úrskurðurinn hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð mannréttindasamtaka og kvenréttindasamtaka í Póllandi og í Evrópu en líka hjá almenningi í Póllandi sem hefur frá því að úrskurðurinn féll mótmælt stanslaust um allt Pólland undir forystu grasrótarkvennahreyfingarinnar Strajk Kobiet. Hundruð þúsundir og allt að milljónir mótmælenda hafa mótmælt víðs vegar í borgum landsins á borð við Varsjá, Lodz, Poznan, Gdansk og Kraká síðastliðnar vikur. Um er að ræða langfjölmennustu mótmæli sem sést hafa í landinu frá árinu 2015 þegar últra hægri íhalds- og þjóðernisflokkurinn Lög og réttur náði meiri hluta í ríkisstjórn Póllands.

En þetta eru ekki bara fjölmennustu mótmæli frá því 2015 heldur eru mótmælin nú þau fjölmennustu frá því þegar stjórnmálaaflið Samstaða felldi stjórn kommúnista á níunda áratugnum. Þessi mótmæli eiga sér stað nú þrátt fyrir Covid-19 sem geisar í Póllandi líkt og annars staðar í Evrópu, enda er þörfin til að mótmæla sterk hjá mótmælendum, mjög sterk. Það er verið að mótmæla freklegri feðraveldismenningu sem telur sig geta ráðið yfir líkama og sjálfsákvörðunarrétti kvenna um leið og komið er illa fram við konur og sjálfsögð réttindi þeirra, allt í skjóli trúarofstækis, andstyggilegs popúlisma, afturhalds og djúpstæðrar kvenfyrirlitningar. Enda eru slagorð pólsku mótmælendanna nú í Póllandi að Pólland sé orðið að kvennahelvíti. Við þetta kvennahelvíti svokallaða bætist niðurlægjandi framkoma pólsku ríkisstjórnarinnar við hinsegin fólk, flóttafólk og minnihlutahópa sem pólska ríkisstjórnin dregur réttindi af stöðugt. Samfélagið hefur fengið nóg, kyrja pólskir mótmælendur.

Herra forseti. Í samtölum mínum við pólskar konur í kvenréttindasamtökum þar í landi og hér á Íslandi hefur ótti og reiði verið allsráðandi. Ótti þeirra er undirliggjandi í því hvernig pólskar konur og stúlkur eiga að geta ráðið yfir sínum eigin líkama við þessar pólitísku aðstæður og hvernig þær eiga að geta fengið þá lífsnauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof er, kjósi kona eða stúlka það. Stuðningur frá erlendum vinveittum ríkjum til þeirra er þeim lífsnauðsynlegur.

Því er það, herra forseti, spurning um líf eða dauða hvort konur og stúlkur fái löglega og faglega heilbrigðisþjónustu á meðgöngu þegar þær kjósa að undirgangast þungunarrof eða hvort þær eru neyddar til þess að gera það á ólöglegan hátt. Sú ólöglega leið getur einfaldlega verið lífshættuleg konum og stúlkum eða valdið líkamlegum skaða um alla ævi. Þetta hefur mannréttindastjóri Evrópuráðsins, Dunja Mijatovic, bent á og hún hefur gagnrýnt harðlega úrskurð stjórnlagadómstólsins fyrir að skerða sjálfsögð mannréttindi kvenna en líka vegna ógnarinnar sem steðjar með úrskurðinum að heilsu þeirra.

Það er því í fullri og einlægri samstöðu með réttindabaráttu pólskra kvenna og kvenréttindum í Evrópu sem ég legg þessa þingsályktunartillögu fram um að Alþingi Íslands feli heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem ferðast hingað til lands, í því skyni að gangast undir þungunarrof, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfyllir skilyrði í lögum um þungunarrof, nr. 43/2019. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.

Herra forseti. Aðstæður til að bjóða konum sem ferðast til Íslands upp á þessa þjónustu eru góðar. Nýlokið er heildarendurskoðun á lögum um þungunarrof, einmitt lög nr. 43 sem samþykkt voru árið 2019, en yfirlýst markmið þeirra er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Ísland er þar að auki aðili að fjölmörgum alþjóðasamningum, m.a. samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, Istanbúl-samningnum, og kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem m.a. er kveðið á um rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.

Með hliðsjón af því er markmið þessarar þingsályktunartillögu að tryggja að einstaklingum, sem hafa erlent ríkisfang og hafa ekki dvalið hér á landi til lengri tíma en geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu, séu veitt þau réttindi sem lög nr. 43/2019 tryggja. Með því væri verndaður réttur þeirra sem ekki geta notið sjálfsforræðis yfir eigin líkama, í ljósi laga eða niðurstöðu dóma í heimalandi þeirra.

Með þessari þingsályktunartillögu er tekin afgerandi staða með kvenréttindum í Evrópu. Aðgengi að þungunarrofi er ekki jafnt innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að mynda má ekki framkvæma þungunarrof á Möltu nema líf konunnar sé í hættu. Þannig mun þingsályktunartillagan ná yfir þessi tvö lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Möltu og Póllands. Þó að það væri óskandi að geta tekið á móti fleiri konum eða einstaklingum sem ekki hafa þessi réttindi í heimalandi sínu eru flutningsmenn frumvarpsins meðvitaðir um það bakslag sem er í sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir líkama sínum í Evrópu sem verður að sporna við. Það er í krafti evrópskrar samvinnu á vettvangi heilbrigðisþjónustu á Íslandi hægara um vik að tryggja konum og einstaklingum með evrópska sjúkratryggingakortið þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu sem felst í þungunarrofi, ef konur eða stúlkur kjósa svo sjálfar.

Herra forseti. Aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðgöngu eru grundvallarmannréttindi. Með því að tryggja aðgengi erlendra borgara, sem annars hafa ekki löglegan rétt til þessarar þjónustu, tæki Ísland afgerandi stöðu með réttindum þeirra, ekki bara hérlendis heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi og gæfi skýr skilaboð um að íslenska þjóðþingið og íslensk heilbrigðisyfirvöld standi með réttindum kvenna í Evrópu og um allan heim.

Ég vil líka í þessu samhengi benda þeim þingmönnum, sem hafa komið hér upp í ræðustól Alþingis og flutt ræður sem ekki hefur mátt veita andsvör við eða skrifað greinar í Morgunblaðið, sem er orðið eina málgagn Donalds Trumps í Vestur-Evrópu, um að hér muni landið fyllast af pólskum konum og stúlkum til þess að fara í þungunarrof, á það að ef við ætlum að standa með frelsi og lýðræði í Evrópu þá þurfum við að taka afstöðu, og það afgerandi afstöðu, með réttindum og heilbrigði kvenna í Evrópu. Þessi þingsályktunartillaga er afstaða með kvenréttindum í Evrópu og með því að við tökum afstöðu gegn uppgangi fasisma og valdahyggju og yfirgangi karla yfir líkama kvenna sem þær eiga sjálfar og ráða yfir sjálfar.

Þetta er nauðsynleg barátta vegna þess að við sjáum það í Evrópu núna að bakslagið gegn sjálfsögðum réttindum kvenna er að harðna. Við sáum það í fréttum í gær frá Póllandi þegar vopnaðir nýnasistar gengu um götur Varsjárborgar til þess að mótmæla sjálfsögðum réttindum pólskra kvenna yfir sínum eigin líkama. Sjaldan hefur andstaðan við kvenréttindi verið vopnuð svo afdráttarlaust eins og hún sást í gær. Og þetta eru sumir þingmenn í íslenska þjóðþinginu að styðja með sínum gunguhætti og skrifum og þar með að taka afstöðu með uppgangi þessarar pólitíkur í Evrópu.

Ég vil þakka þeim 18 þingmönnum sem eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu því að þeirra afstaða er skýr. Þau taka afstöðu með réttindum kvenna, með mannréttindum, með frelsi og lýðræði í Evrópu og fyrir það ber að þakka.