151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég kem eingöngu hér upp vegna umræðu um að pólsk stjórnvöld kunni að geta neitað greiðslu ákveðinnar læknismeðferðar erlendis. Ef læknismeðferðin er þeim ekki þóknanleg þá er evrópska sjúkratryggingakerfið ekki þannig að stjórnvöld geti undanskilið einhverjar aðgerðir ef ekki er unnt að veita þá nauðsynlegu aðstoð heima fyrir. Það er einmitt hluti af þessu kerfi að viðkomandi stjórnvöld geta ekki bara handvalið. Það er engu að síður þannig að viðkomandi sjúklingur greiðir fullu verði fyrir læknisaðstoð sem hann fær í því ríki þar sem hann leitar aðstoðar og fær það svo endurgreitt við heimkomu. Rétt eins og þegar við þurfum að leita aðstoðar á ferðalögum okkar erlendis, í Evrópuríkjum, þá þurfum við að greiða fyrir þjónustuna. Ýmist er það tryggingafélag sem tekur kostnaðinn eða þá Sjúkratryggingar Íslands.